Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Mútur (e. bribes) eru ein birtingarmynd spillingar (e. corruption). Samtök gegn spillingu, Transparency International, skilgreina spillingu sem „misnotkun stöðu og valds í eiginhagsmunaskyni“ (e. „abuse of entrusted power for private gains“, sjá https://www.transparency.org/what-is-corruption#define). Spilling getur tengst löglegri starfsemi, til dæmis þegar verktaki greiðir embættismanni „fyrirgreiðslufé“ til að tryggja sér verk án útboðs eða án þess að vera með lægsta boð. Spilling getur líka tengst ólöglegri starfsemi eins og þegar embættismanni er greitt fyrir að leita ekki að ólöglegum vímuefnum í farangri eða flutningi.
Dæmin hér að ofan eiga við um spillingu og mútur sem valda efnahagslegum skaða: Verk gengur ekki til þess aðila sem getur unnið það með ódýrustum hætti; eða ólögleg/hættuleg vímuefni eiga greiðari leið til landsins. En það er líka hægt að finna dæmi um að mútur hafi jákvæð áhrif á almannaheill; saga helfararinnar og seinni heimstyrjaldarinnar er uppfull af slíkum dæmum. En það er vissulega skilgreiningaratriði hvort það teljist mútur þegar almenningur beitir fjárgreiðslum til að komast hjá afleiðingum ólöglegra stjórnvalda eða afleiðingum ólöglegra ákvarðana sem lögleg stjórnvöld kunna að hafa tekið.
Mútur eru ein birtingarmynd spillingar. Myndin sýnir skilti í Úganda sem varar við spillingu.
Skaðsemi mútugreiðslna
Við fyrstu sýn og skoðun mætti ætla að mútur hafi lítil ef nokkur áhrif á efnahagsstarfsemi. Tekjur þess sem mútar lækka sem mútunum nemur en tekjur hins sem mútað er hækka um sömu upphæð. Múturnar hafa þannig (lítilvæg) áhrif á tekjuskiptingu en ekki heildartekjur í hagkerfinu. En þegar nánar er að gætt kemur í ljós að málið er ekki svo einfalt.
Mútur eru greiddar til að hafa áhrif. Þær eru greiddar til einstaklinga til þess að þeir seilist út fyrir valdssvið sitt eða umboð og breyti rétt teknum ákvörðunum eða taki ákvarðanir sem ekki eru í samræmi við fyrirfram ákveðnar reglur. Vörugjöld og vöruskattar eru lagðir á til að afla ríkissjóði þess ríkis sem gjöldin setur tekna eða til að hafa áhrif á magn og samsetningu framleiðslunnar. Sé starfsfólki í skattheimtu mútað þannig að ekki komi til skattgreiðslu tapast tekjur sem ríkissjóður viðkomandi lands þarf að afla eftir öðrum leiðum.
En boltinn stoppar ekki þar því mútuþeginn skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja í framleiðslu þegar sum fyrirtæki njóta (ólöglegra) ívilnana en önnur ekki. Fyrirtæki sem ekki beita mútum í rekstri sínum finna fljótt að samkeppnisstaða er skekkt með óeðlilegum hætti. Þau eiga þá tvo kosti: Að beita sömu brögðum og múta starfsfólki skattsins eða að hætta í viðkomandi framleiðslugrein. Sé seinni kosturinn valinn getur komið að því að fyrirtækið sem beitir fyrir sig mútum komist í markaðsaðstöðu sem gerir því kleift að hækka verð til neytenda. Takist fyrirtækinu það er svo komið að mútukostnaðarreikningnum er velt yfir á neytendur. Sé fyrri kosturinn valinn og flest fyrirtæki í „bransanum“ beiti mútum er leiðin orðin greið fyrir annars konar ólöglega starfsemi, þar á meðal verðsamráð. Allt ber þetta að sama brunni: Reikningurinn fyrir múturnar lendir fyrr eða síðar hjá almennum neytendum eða skattgreiðendum.
Reikningur mútugreiðslna lendir fyrr eða síðar hjá almennum neytendum eða skattgreiðendum.
Í mörgum löndum, Íslandi þar á meðal, er það refsivert að bera fé á opinbera starfsmenn til að fá fyrirgreiðslu sem ekki yrði veitt af öðrum kosti. Skiptir engu máli hvort viðkomandi opinberu starfsmenn eru innlendir eða erlendir. Þessi lagaákvæði eru byggð á fjárhagslegum rökum. Lög sem banna bandarískum fyrirtækjum að greiða erlendum embættismönnum mútur eru tilkomin í kjölfar þess að Japanir vildu kaupa herflugvélar og leituðu meðal annars til bandarískra framleiðenda (sjá The True Cost of Global Corruption). Væntanlega hefur bandaríska þinginu verið ljóst að mútugreiðslur til japanskra þegna drægju úr ávinningi bandarískra fyrirtækja og launþega af viðskiptunum með herflugvélarnar.
Kostnaður vegna spillingar
Kannanir og úttektir alþjóðastofnana benda til þess að útgjöld til heilbrigðis- og menntamála í spilltum þjóðfélögum séu minni en í þjóðfélögum þar sem spilling er minni (sjá UN report: Corruption costs world $3.6 trillion annually - Big Think og The True Cost of Global Corruption). Spilling kemur því fram í minni menntun og lakara heilbrigðisástandi þar sem spilling er mikil. Í því felst mikið þjóðhagslegt tap. Nánar tiltekið er það mat sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna að kostnaður vegna spillingar, mútugreiðslna þar með talið nemi 3,6 milljörðum bandaríkjadala á ári hverju.
Verndargreiðslur (it. pizzo, e. protection money)
Sikiley er þekkt fyrir náttúrufegurð og árþúsunda sögu. En eyjan er líka þekkt fyrir miður skemmtilega starfsemi. Glæpasamtök kennd við mafíuna krefjast gjarnan verndargreiðslu af hálfu verslunareigenda og þeirra sem stunda einhvers konar þjónustu. Sé ekki greitt hljóta þeir sem neita verra af: Verslunarhús brennur, bátar sökkva í höfninni, einstaklingum er veittur líkamlegur skaði (sjá Corriere.it og Addiopizzo - english). Verndargreiðslur eru vissulega eitt form spillingar. En það er mikilvægt að blanda þeim ekki saman við mútur.
Mynd frá Palermó á Sikiley.
Mútugreiðandi er frjáls af því að greiða múturnar eða ganga frá borði án þess að taka þátt í þeim viðskiptum sem eru háðar mútunum. Sá sem krafinn er um verndargreiðslur er ekki frjáls að því að hætta við „viðskiptin“. Ef hann greiðir ekki þá hefur hann verra af. Þetta leiðir hugann að því að sá sem mútar hefur alla jafna einhvers konar valdayfirburði yfir þann sem er mútað þó ekki sé það alveg algilt. En sá sem krafinn er um verndargreiðslu er ávallt valdaminni en sá sem verndargreiðlunnar krefst.
Niðurstaða
Niðurstaðan er sú að hagfræðileg rök hníga til þess að mútur dragi úr hagvexti og velferð. Löggjafinn tekur undir þessa niðurstöðu og hefur reist lagalegar skorður við mútugreiðslum. Það er til marks um almennt samkomulag um að ávinningur af að berjast gegn spillingu og mútum sé miklu meiri en kostnaður við þá baráttu.
Myndir:
Þórólfur Matthíasson. „Hvað hefur hagfræðin að segja um mútur?“ Vísindavefurinn, 22. nóvember 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=78308.
Þórólfur Matthíasson. (2019, 22. nóvember). Hvað hefur hagfræðin að segja um mútur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=78308
Þórólfur Matthíasson. „Hvað hefur hagfræðin að segja um mútur?“ Vísindavefurinn. 22. nóv. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=78308>.