Hefur verið skoðað nánar, hvort grávaran sem nefnd er í Egils sögu og kölluð “askraki” (-ar) og Sigurður Nordal segir í formála sögunnar vera torskilið orð, (án þess að skýra það frekar), - sé etv. það sama og “astrakan” skinn (astrakan pels)? Miðaldra konur og eldri sem ég hef hitt, kalla smáhrokkinn skinnpels, (af unglambi) “Astrakanpels” og slíkir eru til í minni fjölskyldu, enn þann dag í dag. Á námskeiði í Egilssögu hjá Jóni Böðvarssyni, fyrir margt löngu, kom þetta til umræðu og karlar í hópnum þekktu undantekningarlaust ekki til þessa (ekki frekar en Sigurður Nordal) en nokkrar konur í hópnum töldu víst að þetta væri sami hlutur.Ásgeir Blöndal Magnússon fjallaði bæði um orðið astrakan og askraki í Íslenskri orðsifjabók (1989:27, 29). Um askraki segir hann:
askraki k. † ‘grávara, loðskinn’. To., líkl. úr frússn. skorka ‘lítið loðskinn’; ummyndað eftir askur og rakki (1).Krossinn merkir að orðið sé þekkt í fornu máli. Rakki (1) merkir ‘hundur’ og skinnið hefur ef til vill minnt á feld á hundi. Svipuð skýring kemur fram í orðsifjabók Jan de Vries (1962:15). Hann tengir fyrri liðinn þó við orðið aska og síðari liðinn við rakki í merkingunni ‘refur’. Í fyrsta bindi fornmálsorðabókarinnar sem unnið er að í Kaupmannahöfn (ONP 1995: dálkur 611) segir: „Pelsværk (uvist af hvilken art)““ og vísað er í dæmið í Egils sögu og til Sigurðar Nordal eins og fram kemur í fyrirspurninni. Eldri er umfjöllun í ONS IV:36 þar sem birtar eru viðbætur og leiðréttingar við verk Johans Fritzners í umsjón Finns Hødnebøs. Þar stendur:
askrak(k)i ordets ophav og bet [merking] er meget omdiskutert.Um astrakan segir í orðsifjabókinni:
astrakan h. (19. öld) ‘hrokkinhært lambskinn; vefnaður með svipaðri áferð’; af heiti rússn. borgarinnar Astrakan sem á að vera nefnd eftir stofnanda, Hadjidji Tarkhan.Af þessu sést að Ásgeir hefur elst dæmi um orðið frá 19. öld. Kemur það heim og saman við dæmin sem koma fram á timarit.is. Þar er til dæmis minnst á „astrakan hundskinns-húfu“ í blaðinu Lögbergi 1898. Yngri tillögur til skýringar á askraki hef ég ekki fundið né tilraun til að tengja saman það orð og orðið astrakan. Heimildir:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík. (Orðabókina má einnig finna rafrænt á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum ræðum á málið.is.)
- ONP = Ordbog over det norrøne prosasprog. I: a–ban. 1995. Den arnamagnæanske commission, København.
- ONS: Ordbog over Det gamle norske Sprog.1972. Fjerde bind. Rettelser og tillegg ved Finn Hødnebø. Universitetsforlaget, Oslo, Bergen, Tromsø.
- Vries, Jan de. 1960. Altnordisches etymologisches Wörterbuch. E.J.Brill, Leiden.
- Eskimo couple in fur parkas, woman with tatoo on chin, location unknown, ca 1899 - Wikimedia Commons. (Sótt 03.01.2020).