Er að taka ökupróf og er alltaf að fá eitthvað um að ferma og afferma ökutæki í æfingarprófunum og ég hef ekki hugmynd hvað það er. Þannig hvað þýðir að ferma og afferma bifreið?Sögnin að ferma merkir að hlaða bifreið, skip eða flugvél vörum sem heita þá einu nafni farmur. Samheiti við ferma í þessari merkingu er hlaða sem í Íðorðabanka Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er skýrð ‘raða farmi, farangri og pósti í vörurými loftfars, svo og aðföngum í farþegarými’. Á hún einnig við um notkun í öðru samhengi svo sem um bifreiðar. Afferma merkir að taka vörur úr bifreið, skipi, flugvél og flytja þær í geymslu, verslun eða á annan ákvörðunarstað. Mynd:
- Pixabay. (Sótt 19.12.2019).