Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Í hverju hafa samskipti Íslands og Japans aðallega falist?

Kristín Ingvarsdóttir

Öll spurningin hljóðaði svona:
Hvenær fóru Japan og Ísland í opinbert stjórnmálasamband og í hverju hafa samskipti landanna helst falist?

Ísland og Japan stofnuðu til opinbers stjórnmálasambands þann 8. desember árið 1956. Japanir áttu frumkvæði að viðræðunum, en Íslendingar þurftu að hugsa sig vel um áður en tillagan var samþykkt. Þar sem íslenska utanríkisþjónustan var ung að árum og hafði takmarkað bolmagn, þótti ekki æskilegt að stofna til formlegra samskipta við fjarlæg ríki. Japönum var aftur á móti mikið í mun að koma á samskiptum við sem flest ríki til að styrkja stöðu sína á alþjóðavettvangi, en Japan varð einmitt fullgildur aðili að Sameinuðu þjóðunum aðeins tíu dögum eftir að Íslendingar og Japanir stofnuðu til stjórnmálasambands. Opinber samskipti landanna voru þó takmörkuð framan af og 45 ár liðu þar til opnuð voru gagnkvæm sendiráð landanna árið 2001.

Viðskipti landanna hófust á ný árið 1950 eftir að hafa legið niðri í um áratugar skeið vegna seinni heimsstyrjaldarinnar. Viðskiptin uxu hratt, en sá böggull fylgdi þó skammrifi að viðskiptin voru mjög einhliða og byggðust nær eingöngu á innflutningi á japönskum vörum til Íslands. Íslendingar byrjuðu á því að flytja inn mikið af netum og öðrum búnaði fyrir fiskiðnað, en vöruúrvalið og -magnið óx fljótt. Árið 1965 markar upphaf stórfellds innflutnings á japönskum bílum til landsins og árið 1971 gerðu íslenskar útgerðir samning um kaup á 10 fiskitogurum frá Japan, sem var þá einn stærsti viðskiptasamningur sem gerður hafði verið hérlendis.

Auglýsing fyrir Toyota Crown í Tímanum 24. ágúst 1965.

Það varð forgangsverkefni fyrstu ræðismanna landanna, þeirra Baldvins Einarssonar (frá 1963) og Kunitoshi Okazaki (frá 1964) að finna lausn á vaxandi viðskiptahalla Íslands gagnvart Japan. Fyrir tilstuðlan þeirra hófst útflutningur á sjávarafurðum frá Íslandi árið 1966 sem lagði grunn að mikilvægum viðskiptum fyrir íslenskan sjávarútveg. Jafnvægi náðist loks í viðskiptum landanna frá og með níunda áratugnum eftir mikla aukningu í útflutningi sjávarafurða. Frá aldamótum hefur mikilvægi ferðaþjónustu aukist í viðskiptum landanna, þar sem Ísland hefur fest sig í sessi sem vinsæll áfangastaður japanskra ferðamanna.

Óhætt er að fullyrða að áhugi Japana á Íslendingasögunum og íslensku máli sé gegnumgangandi þráður í tengslum Japans við Ísland, og hefur sá áhugi oft verið kveikjan að frekari samskiptum landanna. Helstu verk Íslendingasagnanna hafa verið þýdd á japönsku og íslenska hefur víða verið kennd í japönskum háskólum á ýmsum tímum. Á undanförnum áratugum hefur íslensk tónlist einnig átt miklum vinsældum að fagna í Japan. Menningartengslin voru handahófskennd framan af en á áttunda og níunda áratug síðustu aldar myndaðist varanlegri umgjörð í samskiptunum með tilkomu meðal annars gagnkvæmra námsstyrkja, stofnun Íslenska fræðafélagsins í Japan og tilkomu íslensk-japanskra vinafélaga í báðum löndunum. Árið 2003 hófst kennsla í japönsku til BA-gráðu við Háskóla Íslands og varð japanska þar með fyrsta Asíumálið sem kennt var til háskólagráðu á Íslandi.

Frá hinni árlegu Japanshátíð sem nemendur og kennarar í japönsku við Háskóla Íslands standa fyrir.

Nokkrir þjóðkunnir Íslendingar heimsóttu Japan eða dvöldust í landinu á fyrri hluta 20. aldar og gerðu ferðum sínum góð skil heimafyrir í bókum, dagblöðum og tímaritum. Þeirra þekktastur er rithöfundurinn Jón Sveinsson, einnig þekktur sem Nonni. Nánar má lesa um samskipti landanna fyrir stofnun stjórnmálasambands í svari við spurningunni Hver eru elstu þekktu tengsl Japans og Íslands?

Síðast en ekki síst ber að nefna að opinber tengsl landanna styrktust mjög í forsetatíð Vigdísar Finnbogadóttur vegna vinsælda Vigdísar í Japan og vináttu hennar við áhrifafólk í japönsku samfélagi, meðal annars Yoshihiko Tsuchiya (d. 2008) sem var meðal annars forseti efri deildar japanska þingsins og fylkisstjóri í Saitama-fylki. Vigdís Finnbogadóttir hefur heimsótt Japan við fjölmörg tækifæri og hafa heimsóknir hennar ávallt vakið mikla athygli, enda mörgum Japönum mikið í mun að kynna Vigdísi sem fyrirmynd í jafnréttismálum. Vigdís tengdist japönsku keisarafjölskyldunni vinaböndum. Hún var sæmd heiðursdoktorsnafnbót frá Gakushuin-háskóla árið 1991, en skólinn er þekktur fyrir náin tengsl við japönsku keisarafjölskylduna. Stofnun íslensk-japanska vinafélagsins í Japan og vináttufélags Íslands í japanska þinginu má rekja beint til samstarfs Vigdísar og Tsuchiya.

Forsíðumynd Morgunblaðsins 19. september 1987 sem tekin var í keisarahöllinni í Tókýó þegar Vigdís Finnbogadóttir hitti Hirohito Japanskeisara.

Stórt skref var tekið í samskiptum landanna árið 2001 þegar Ísland og Japan opnuðu gagnkvæm sendiráð í Tókýó og Reykjavík. Ákvörðunin var tekin í kjölfar Íslandsheimsóknar þáverandi forsætisráðherra Japans, Keizo Obuchi árið 1999, en á fundi forsætisráðherranna Obuchi og Davíðs Oddssonar gafst tækifæri til að ræða óskir Íslendinga um gagnkvæm sendiráð. Fyrsti sendiherra Íslands með aðsetur í Japan var Ingimundur Sigfússon, en sendiherra Japans hafði aðsetur í Osló fyrstu árin eftir stofnun sendiráðs hér á landi. Síðan sendiráðin voru stofnuð hafa gagnkvæmar heimsóknir ráðamanna orðið tíðari en áður. Af nýlegum dæmum má nefna heimsóknir utanríkisráðherra landanna árið 2018, þegar Guðlaugur Þór Þórðarson heimsótti Japan vorið 2018 og utanríkisráðherra Japans, Taro Kono, tók þátt í Arctic Circle í Reykjavík haustið 2018. Gagnkvæm viðskiptaráð hafa verið stofnuð eftir opnun sendiráðanna og mikilvægir samningar milli landanna hafa náðst á undanförnum árum, til dæmis tóku gildi bæði tvísköttunarsamningur og samningur um vinnudvöl ungs fólks (Working Holiday) árið 2018.

Heimildir:
  • Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon og Hallgrímur Snorrason (ritstjórar). 1997. Hagskinna: sögulegar hagtölur um Ísland. Reykjavík: Hagstofa Íslands.
  • Hjalti Einarsson, Ólafur Hannibalsson, Jón Hjaltason og Gísli Jónsson. 1996. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna í 50 ár. Reykjavík: Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna.
  • Jansen, Marius B. 2000. The Making of Modern Japan. Cambridge, Mass.: Belknap Press of Harvard University Press.
  • Kristín Ingvarsdóttir. 2017a. „„Frá Sóleyjum“: Upphaf samskipta Íslendinga og Japana 1904–1942.“ Skírnir 191 (1): 80–114.
  • Kristín Ingvarsdóttir. 2017b. „Samskipti Íslands og Japans eftir síðari heimsstyrjöld: Stjórnmálasamband í 60 ár.“ Skírnir 191 (2): 501-544.
  • Pétur J. Thorsteinsson. 1992. Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál: sögulegt yfirlit. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Myndir:

Höfundur

Kristín Ingvarsdóttir

lektor í japönskum fræðum

Útgáfudagur

23.10.2019

Spyrjandi

Garðar Friðrik Harðarson, ritstjórn

Tilvísun

Kristín Ingvarsdóttir. „Í hverju hafa samskipti Íslands og Japans aðallega falist?“ Vísindavefurinn, 23. október 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=78134.

Kristín Ingvarsdóttir. (2019, 23. október). Í hverju hafa samskipti Íslands og Japans aðallega falist? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=78134

Kristín Ingvarsdóttir. „Í hverju hafa samskipti Íslands og Japans aðallega falist?“ Vísindavefurinn. 23. okt. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=78134>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Í hverju hafa samskipti Íslands og Japans aðallega falist?
Öll spurningin hljóðaði svona:

Hvenær fóru Japan og Ísland í opinbert stjórnmálasamband og í hverju hafa samskipti landanna helst falist?

Ísland og Japan stofnuðu til opinbers stjórnmálasambands þann 8. desember árið 1956. Japanir áttu frumkvæði að viðræðunum, en Íslendingar þurftu að hugsa sig vel um áður en tillagan var samþykkt. Þar sem íslenska utanríkisþjónustan var ung að árum og hafði takmarkað bolmagn, þótti ekki æskilegt að stofna til formlegra samskipta við fjarlæg ríki. Japönum var aftur á móti mikið í mun að koma á samskiptum við sem flest ríki til að styrkja stöðu sína á alþjóðavettvangi, en Japan varð einmitt fullgildur aðili að Sameinuðu þjóðunum aðeins tíu dögum eftir að Íslendingar og Japanir stofnuðu til stjórnmálasambands. Opinber samskipti landanna voru þó takmörkuð framan af og 45 ár liðu þar til opnuð voru gagnkvæm sendiráð landanna árið 2001.

Viðskipti landanna hófust á ný árið 1950 eftir að hafa legið niðri í um áratugar skeið vegna seinni heimsstyrjaldarinnar. Viðskiptin uxu hratt, en sá böggull fylgdi þó skammrifi að viðskiptin voru mjög einhliða og byggðust nær eingöngu á innflutningi á japönskum vörum til Íslands. Íslendingar byrjuðu á því að flytja inn mikið af netum og öðrum búnaði fyrir fiskiðnað, en vöruúrvalið og -magnið óx fljótt. Árið 1965 markar upphaf stórfellds innflutnings á japönskum bílum til landsins og árið 1971 gerðu íslenskar útgerðir samning um kaup á 10 fiskitogurum frá Japan, sem var þá einn stærsti viðskiptasamningur sem gerður hafði verið hérlendis.

Auglýsing fyrir Toyota Crown í Tímanum 24. ágúst 1965.

Það varð forgangsverkefni fyrstu ræðismanna landanna, þeirra Baldvins Einarssonar (frá 1963) og Kunitoshi Okazaki (frá 1964) að finna lausn á vaxandi viðskiptahalla Íslands gagnvart Japan. Fyrir tilstuðlan þeirra hófst útflutningur á sjávarafurðum frá Íslandi árið 1966 sem lagði grunn að mikilvægum viðskiptum fyrir íslenskan sjávarútveg. Jafnvægi náðist loks í viðskiptum landanna frá og með níunda áratugnum eftir mikla aukningu í útflutningi sjávarafurða. Frá aldamótum hefur mikilvægi ferðaþjónustu aukist í viðskiptum landanna, þar sem Ísland hefur fest sig í sessi sem vinsæll áfangastaður japanskra ferðamanna.

Óhætt er að fullyrða að áhugi Japana á Íslendingasögunum og íslensku máli sé gegnumgangandi þráður í tengslum Japans við Ísland, og hefur sá áhugi oft verið kveikjan að frekari samskiptum landanna. Helstu verk Íslendingasagnanna hafa verið þýdd á japönsku og íslenska hefur víða verið kennd í japönskum háskólum á ýmsum tímum. Á undanförnum áratugum hefur íslensk tónlist einnig átt miklum vinsældum að fagna í Japan. Menningartengslin voru handahófskennd framan af en á áttunda og níunda áratug síðustu aldar myndaðist varanlegri umgjörð í samskiptunum með tilkomu meðal annars gagnkvæmra námsstyrkja, stofnun Íslenska fræðafélagsins í Japan og tilkomu íslensk-japanskra vinafélaga í báðum löndunum. Árið 2003 hófst kennsla í japönsku til BA-gráðu við Háskóla Íslands og varð japanska þar með fyrsta Asíumálið sem kennt var til háskólagráðu á Íslandi.

Frá hinni árlegu Japanshátíð sem nemendur og kennarar í japönsku við Háskóla Íslands standa fyrir.

Nokkrir þjóðkunnir Íslendingar heimsóttu Japan eða dvöldust í landinu á fyrri hluta 20. aldar og gerðu ferðum sínum góð skil heimafyrir í bókum, dagblöðum og tímaritum. Þeirra þekktastur er rithöfundurinn Jón Sveinsson, einnig þekktur sem Nonni. Nánar má lesa um samskipti landanna fyrir stofnun stjórnmálasambands í svari við spurningunni Hver eru elstu þekktu tengsl Japans og Íslands?

Síðast en ekki síst ber að nefna að opinber tengsl landanna styrktust mjög í forsetatíð Vigdísar Finnbogadóttur vegna vinsælda Vigdísar í Japan og vináttu hennar við áhrifafólk í japönsku samfélagi, meðal annars Yoshihiko Tsuchiya (d. 2008) sem var meðal annars forseti efri deildar japanska þingsins og fylkisstjóri í Saitama-fylki. Vigdís Finnbogadóttir hefur heimsótt Japan við fjölmörg tækifæri og hafa heimsóknir hennar ávallt vakið mikla athygli, enda mörgum Japönum mikið í mun að kynna Vigdísi sem fyrirmynd í jafnréttismálum. Vigdís tengdist japönsku keisarafjölskyldunni vinaböndum. Hún var sæmd heiðursdoktorsnafnbót frá Gakushuin-háskóla árið 1991, en skólinn er þekktur fyrir náin tengsl við japönsku keisarafjölskylduna. Stofnun íslensk-japanska vinafélagsins í Japan og vináttufélags Íslands í japanska þinginu má rekja beint til samstarfs Vigdísar og Tsuchiya.

Forsíðumynd Morgunblaðsins 19. september 1987 sem tekin var í keisarahöllinni í Tókýó þegar Vigdís Finnbogadóttir hitti Hirohito Japanskeisara.

Stórt skref var tekið í samskiptum landanna árið 2001 þegar Ísland og Japan opnuðu gagnkvæm sendiráð í Tókýó og Reykjavík. Ákvörðunin var tekin í kjölfar Íslandsheimsóknar þáverandi forsætisráðherra Japans, Keizo Obuchi árið 1999, en á fundi forsætisráðherranna Obuchi og Davíðs Oddssonar gafst tækifæri til að ræða óskir Íslendinga um gagnkvæm sendiráð. Fyrsti sendiherra Íslands með aðsetur í Japan var Ingimundur Sigfússon, en sendiherra Japans hafði aðsetur í Osló fyrstu árin eftir stofnun sendiráðs hér á landi. Síðan sendiráðin voru stofnuð hafa gagnkvæmar heimsóknir ráðamanna orðið tíðari en áður. Af nýlegum dæmum má nefna heimsóknir utanríkisráðherra landanna árið 2018, þegar Guðlaugur Þór Þórðarson heimsótti Japan vorið 2018 og utanríkisráðherra Japans, Taro Kono, tók þátt í Arctic Circle í Reykjavík haustið 2018. Gagnkvæm viðskiptaráð hafa verið stofnuð eftir opnun sendiráðanna og mikilvægir samningar milli landanna hafa náðst á undanförnum árum, til dæmis tóku gildi bæði tvísköttunarsamningur og samningur um vinnudvöl ungs fólks (Working Holiday) árið 2018.

Heimildir:
  • Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon og Hallgrímur Snorrason (ritstjórar). 1997. Hagskinna: sögulegar hagtölur um Ísland. Reykjavík: Hagstofa Íslands.
  • Hjalti Einarsson, Ólafur Hannibalsson, Jón Hjaltason og Gísli Jónsson. 1996. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna í 50 ár. Reykjavík: Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna.
  • Jansen, Marius B. 2000. The Making of Modern Japan. Cambridge, Mass.: Belknap Press of Harvard University Press.
  • Kristín Ingvarsdóttir. 2017a. „„Frá Sóleyjum“: Upphaf samskipta Íslendinga og Japana 1904–1942.“ Skírnir 191 (1): 80–114.
  • Kristín Ingvarsdóttir. 2017b. „Samskipti Íslands og Japans eftir síðari heimsstyrjöld: Stjórnmálasamband í 60 ár.“ Skírnir 191 (2): 501-544.
  • Pétur J. Thorsteinsson. 1992. Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál: sögulegt yfirlit. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Myndir:

...