Ég og vinkona mín erum að vinna verkefni um matarsóun og finnum ekki hversu mörg prósent af fólki á jörðinni sveltur.Í örstuttu máli þá er talið að rúmlega 820 milljónir manna búi við hungur og um 2 milljarðar búi við ótryggt fæðuöryggi. Árið 2015 settu Sameinuðu þjóðirnar fram 17 heimsmarkmið um sjálfbæra þróun sem ríkjum ber að ná fyrir árið 2030. Eitt þessara markmiða snýr að því að útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hefur lengi fylgst með þróun hungurs í heiminum og gefur reglulega út skýrslur um málið. Síðustu ár hefur stofnunin verið í samstarfi við UNICEF, Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP), Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO) og Alþjóðasjóð um þróun landbúnaðar (IFAD) um að fylgjast með hvernig gengur að ná því heimsmarkmiði að útrými hungri. Upplýsingarnar hér á eftir eru fengnar úr skýrslu þessara aðila sem út kom árið 2019 og nefnist The State of Food Security and Nutrition in the World 2019. Í skýrslunni kemur fram að í meira en áratug dró úr hungri í heiminum en undanfarin þrjú ár hefur þróunin því miður verið í öfuga átt. Tíðni eða algengi hungurs hefur verið um 11% síðustu ár en heildarfjöldi þeirra sem búa við hungur hefur aukist lítillega. Árið 2018 er talið að meira en 820 milljón manns hafi búið við hungur en það samsvarar einum af hverjum níu jarðarbúum.
2005 | 2010 | 2015 | 2016 | 2017 | 2018 | |
Heimurinn | 14,5 | 11,8 | 10,6 | 10,7 | 10,8 | 10,8 |
Afríka | 21,2 | 19,1 | 18,3 | 19,8 | 19,8 | 19,9 |
Asía | 17,4 | 13,6 | 11,7 | 11,5 | 11,4 | 11,3 |
Suður-Ameríka og Karíbahaf | 9,1 | 6,8 | 6,2 | 6,3 | 6,5 | 6,5 |
Eyjaálfa | 5,5 | 5,2 | 5,9 | 6,0 | 6,1 | 6,2 |
Norður-Ameríka og Evrópa | < 2,5 | < 2,5 | < 2,5 | < 2,5 | < 2,5 | < 2,5 |
- FAO, IFAD, UNICEF, WFP and WHO. 2019. The State of Food Security and Nutrition in the World 2019. Safeguarding against economic slowdowns and downturns. Rome, FAO. Leyfi: CC BY-NC-SA 3.0 IGO.
- Heimsmarkmið | Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.