Landssíminn hefir fengið talvél frá firmanu L. M. Eriksson í Stokkhólmi, til þess að svara fyrirspurnum manna um hvað klukkan sé. Þegar vélin verður tekin í notkun, geta menn hringt í ákveðið símanúmer, sem er í sambandi við talvélina, hvenær sem er sólahringsins, og án þess að spyrja gefur talvélin nákvæmlega til kynna hvað tímanum líður.Þarna var á ferðinni merkileg nýjung sem meðal annars leysti lögregluna, slökkviliðið og úrsmiði undan því að svara fyrirspurnum Reykvíkinga um hvað rétt klukka væri. Einhverjir bundu líka vonir við að þessi þjónusta mundi bæta tímaskyn og stundvísi. Í frétt Nýja dagblaðsins þar sem greint er frá þjónustunni segir meðal annars:
Ungfrú Halldóra Briem, sem stundar nám við tekniska háskólann í Stokkhólmi, var fengin til að tala inn á plötur talvélarinnar. Hefir henni tekist það prýðilega, enda hefir hún fagra og hreina rödd og mun vafalaust verða fljótt vinsæl meðal Reykvíkinga, þegar hún fer að kenna þeim að fylgjast með tímanum gegnum símann. Þetta nýja hlutverk ungfrú Halldóru verður mikilsvert í daglegu lífi bæjarbúa. Þúsundir og aftur þúsundir símnotenda fá daglega hjá henni þann boðskap, er ætti að geta kennt mönnum það boðorð, sem helzt til oft er brotið meðal Íslendinga, en það er stundvísi.Í nóvember 1937 er þjónustan komin í gagnið eins og lesa má í frétt í Þjóðviljanum. Þar segir:
Fröken klukka er nú tekin til starfa. Þurfa menn ekki annað en að hringja upp 03. Segir þá klukkan upp á sekúndu hvað kl. er. Nefnir hún fyrst klukkustundirnar, þá mínúturnar og loks sekúndur.Ungfrú klukka, sem einnig gekk undir heitinu fröken klukka og jafnvel jómfrú klukka, varð fljótt mjög vinsæl. Í frétt í Morgunblaðinu 1953 kom fram að frá upphafi og til þess tíma hafði ungfrú klukka svarað rúmlega 22 milljónum upphringinga. 40 árum síðar, 1993, var frétt í sama blaði um að Póstur og sími væri að taka í notkun nýja og nákvæmari talklukku. Þar kom fram að klukkan fengi tæplega 5.000 hringingar á dag. Smám saman dró úr þörfinni á þessari þjónustu og í innslagi í RÚV um fröken klukku frá 2013 kom fram að símtölin séu að meðaltali 10.000 á mánuði eða um 120.000 á ári. Því miður liggja ekki fyrir upplýsingar um hversu mörg símtöl klukkan fékk um það leyti þegar þjónustan var lögð niður, í janúar 2023.
- Þjóðviljinn, 7. nóvember 1937 - Tímarit.is. (Sótt 11.9.2020).
- Þjóðviljinn, 12. ágúst 1937 - Tímarit.is. (Sótt 11.9.2020).
- Vísir, 11. ágúst 1937 - Tímarit.is. (Sótt 11.9.2020).
- Nýjung við Landssímann. Nýja dagblaðið, 11. ágúst 1937 - Tímarit.is. (Sótt 11.9.2020).
- Úr daglega lífinu - Heimsókn til "Ungfrú klukku". Morgunblaðið, 9. apríl 1953 - Tímarit.is. (Sótt 11.9.2020).
- Póstur og sími tekur í notkun nýja talklukku. Mbl. 7. júlí 1993. (Sótt 11.9.2020).
- Ungfrú klukka varð strax vinsæl. Morgunblaðið, 14. júní 2013 - Tímarit.is. (Sótt 11.9.2020).
- Ungfrú klukka talar á ný. Mbl. 13. júní 2013. (Sótt 11.9.2020).
- Íslandsklukkan aftur af stað. Morgunblaðið, 29. mars 2014 - Tímarit.is. (Sótt 11.9.2020).
- Ungfrú klukka enn vinsæl í dag. RÚV, 4. nóvember 2013. (Sótt 11.9.2020).
- Ungfrú klukka. RÚV , ódagsett. (Sótt 11.9.2020).
- Ólafur Darri er hin nýja ungfrú klukka. Vísir, 9. febrúar 2013. (Sótt 11.9.2020).
- Síminn, 7. október 2016 - Facebook. (Sótt 11.9.2020).
- lifeofpix.com. (Sótt 17.9.2020).
- File:Olafur Darri Olafsson (33662328228).jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 17.09.2020). Myndina tók Gage Skidmore og hún er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution-ShareAlike 2.0 Generic — CC BY-SA 2.0.