Háskóli Íslands auglýsir af og til miðbiksmat. Varla er Háskóli Íslands að vísa til soðinnar tjöru sem kallast bik. Hvað er og hvaðan kemur þetta "bik" í orðinu miðbiksmat?Orðið miðbik tengist ekki orðinu bik í merkingunni ‘tjara'. Í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar (1989:619) er gefin merkingin ‘miðhluti, miðpunktur'. Hliðarmyndirnar miðdik, og middik merkja hið sama. Allar eru orðmyndirnar frá 16. öld. Elsta dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr Guðbrandsbiblíu (1584) nánar tiltekið úr Esekíel (15:4).
þui [::trénu] verdur a Elld kastad [...] ad Ellduren foreyde so baadum þess endum / og brenne eirnen vpp *Midbykid* þar vt af.Í þýðingunni frá 2007 er textinn svona:
Nei, hann er hafður í eldivið. Þegar eldurinn hefur brennt báða enda og miðjan er sviðin er hann þá til nokkurs nýtur?Ásgeir Blöndal telur miðbik líklega blendingsmynd úr miðdik og miðbil. Forliðurinn mið- sé af lýsingarorðinu miður ‘sem er í miðið, miðsvæðis' og viðliðurinn -dik ef til vill í ætt við díki og sögnina dika ‘skunda, skrefa stórum, skálma'. Miðbik lifir góðu lífi í málinu enn í dag, einkum í föstum orðsamböndum eins og um miðbik aldarinnar, um miðbik síðustu aldar, um miðbik dagsins fór veðrið að versna. Miðbiksmat Háskóla Íslands á væntanlega við mat sem fer fram á miðri önn, miðju misseri. Íslenska orðsifjabók er hægt að nálgast á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum með því að velja málið.is og síðan bókina. Mynd:
- 1923. Bernie Zollman and C.R. King burning peeled log to c… | Flickr. (Sótt 5.11.2019).