Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er karlmennska?

Ingólfur V. Gíslason

Íslensk orðabók segir karlmennsku vera „manndómur, hreysti, dugnaður, hugrekki“. Og nógu áhugavert að þetta er kvenkynsorð. En því er ekki auðsvarað hvað átt sé við með hugtakinu karlmennska. Það getur auðvitað verið upptalning á jákvæðum eiginleikum eins og orðabókin gerir. Þá vaknar spurningin hvort karlmennska sé eitthvað sem aðeins karlar geta búið yfir og hvort það verði neikvætt ef sagt er um konu að hún sé karlmannleg. Vitum við þó vel að „hreysti, dugnaður, hugrekki“ eru eiginleikar sem svo sannarlega geta átt við konur ekki síður en karla. En almennt séð má segja að „karlmennska“ sé notað um jákvæða eiginleika sem einkenna karla eða væri æskilegt að einkenndu þá. Til aðgreiningar hefur svo nýlega skotið upp kollinum hugtakið „eitruð karlmennska“ sem á þá að vísa til þeirra þátta í fari karla sem hafa, eða geta haft, neikvæðar afleiðingar fyrir þá sjálfa eða aðra.

Hvað telst karlmennska er breytilegt eftir menningu, stað og tíma. Sjómenn voru sjálfsagt ímynd karlmennskunnar á Íslandi stóran hluta 20. aldar.

Innan þeirra fræða sem stundum eru kennd við karla, karlafræði, hafa geisað endalausar deilur um þetta hugtak eða ensku útgáfu þess, masculinity, og margar bækur skrifaðar til að reyna að afmarka það. Fjölbreytileiki fyrirbærisins hefur reyndar haft í för með sér að yfirleitt er það notað í fleirtölu og talað um „masculinities“. Þar vísar hugtakið ýmist til þess hvað karlar gera, hvað þeir ættu að gera eða hvað þeir vilja gera. Þær almennu orðabækur sem höfundur þessa svars hefur litið í, tengja karlmennsku og líffræðilega karla. Í karlafræðum flestum og kynjafræðum almennt er hins vegar yfirleitt talað um að þeir eiginleikar sem tengdir eru karlmennsku séu eiginleikar sem bæði karlar og konur geta státað af. Svo virðist það eitthvað misjafnt eftir samfélögum hvort karlmannlegir eiginleikar teljist jákvæðir eða neikvæðir, að minnsta kosti meðal almennings.

Önnur merking og ef til vill skynsamlegri er að karlmennska sé það sem karlar þurfa að vera eða gera til að teljast fullgildir karlar. Það opnar þá möguleika að karlmennska sé misjöfn milli samfélaga og tímabila, að karlmennska í 101 Reykjavík sé annað en í sjávarbyggðum landsins svo dæmi sé tekið. Það er reyndar sú notkun sem algengust virðist í kynjafræðum nútímans. Þannig kom fram í nýlegri doktorsritgerð Ástu Jóhannsdóttur (Kynjaðar sjálfsmyndir á Íslandi, landi kynjajafnréttis - Möguleikar og takmarkanir á birtingu kyngervis meðal ungs fólks í Reykjavík 2012-2016) að ungir barnlausir karlar hérlendis líta svo á að taka fæðingarorlofs og náin umhyggja um eigin börn sé hluti af þeirra karlmennskuímynd og er það að öllum líkindum nokkur breyting frá því sem áður var.

Umönnun og umhyggja fyrir eigin börnum virðist hluti af karlmennskuímynd ungra karlmanna í dag.

En til að svara spurningunni má einfaldlega segja að karlmennska sé hugtak sem á að fanga eiginleika karla. Yfirleitt eru þetta þá jákvæðir þættir, það er karlmennska er jákvætt fyrirbæri og það er jákvætt að vera karlmannlegur (að minnsta kosti í íslenskri merkingu). En allir þeir þættir sem sagðir eru vera karlmannlegir, hvort heldur þeir eru jákvæðir eða neikvæðir, eru þættir sem geta einkennt bæði karla og konur.

Myndir:

Höfundur

Ingólfur V. Gíslason

prófessor í félagsfræði við HÍ

Útgáfudagur

18.11.2019

Spyrjandi

Ólafur Stefánsson, Bergþór Pálmason, Olga Sigurðardóttir, Ágúst Ólason

Tilvísun

Ingólfur V. Gíslason. „Hvað er karlmennska?“ Vísindavefurinn, 18. nóvember 2019, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77927.

Ingólfur V. Gíslason. (2019, 18. nóvember). Hvað er karlmennska? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77927

Ingólfur V. Gíslason. „Hvað er karlmennska?“ Vísindavefurinn. 18. nóv. 2019. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77927>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er karlmennska?
Íslensk orðabók segir karlmennsku vera „manndómur, hreysti, dugnaður, hugrekki“. Og nógu áhugavert að þetta er kvenkynsorð. En því er ekki auðsvarað hvað átt sé við með hugtakinu karlmennska. Það getur auðvitað verið upptalning á jákvæðum eiginleikum eins og orðabókin gerir. Þá vaknar spurningin hvort karlmennska sé eitthvað sem aðeins karlar geta búið yfir og hvort það verði neikvætt ef sagt er um konu að hún sé karlmannleg. Vitum við þó vel að „hreysti, dugnaður, hugrekki“ eru eiginleikar sem svo sannarlega geta átt við konur ekki síður en karla. En almennt séð má segja að „karlmennska“ sé notað um jákvæða eiginleika sem einkenna karla eða væri æskilegt að einkenndu þá. Til aðgreiningar hefur svo nýlega skotið upp kollinum hugtakið „eitruð karlmennska“ sem á þá að vísa til þeirra þátta í fari karla sem hafa, eða geta haft, neikvæðar afleiðingar fyrir þá sjálfa eða aðra.

Hvað telst karlmennska er breytilegt eftir menningu, stað og tíma. Sjómenn voru sjálfsagt ímynd karlmennskunnar á Íslandi stóran hluta 20. aldar.

Innan þeirra fræða sem stundum eru kennd við karla, karlafræði, hafa geisað endalausar deilur um þetta hugtak eða ensku útgáfu þess, masculinity, og margar bækur skrifaðar til að reyna að afmarka það. Fjölbreytileiki fyrirbærisins hefur reyndar haft í för með sér að yfirleitt er það notað í fleirtölu og talað um „masculinities“. Þar vísar hugtakið ýmist til þess hvað karlar gera, hvað þeir ættu að gera eða hvað þeir vilja gera. Þær almennu orðabækur sem höfundur þessa svars hefur litið í, tengja karlmennsku og líffræðilega karla. Í karlafræðum flestum og kynjafræðum almennt er hins vegar yfirleitt talað um að þeir eiginleikar sem tengdir eru karlmennsku séu eiginleikar sem bæði karlar og konur geta státað af. Svo virðist það eitthvað misjafnt eftir samfélögum hvort karlmannlegir eiginleikar teljist jákvæðir eða neikvæðir, að minnsta kosti meðal almennings.

Önnur merking og ef til vill skynsamlegri er að karlmennska sé það sem karlar þurfa að vera eða gera til að teljast fullgildir karlar. Það opnar þá möguleika að karlmennska sé misjöfn milli samfélaga og tímabila, að karlmennska í 101 Reykjavík sé annað en í sjávarbyggðum landsins svo dæmi sé tekið. Það er reyndar sú notkun sem algengust virðist í kynjafræðum nútímans. Þannig kom fram í nýlegri doktorsritgerð Ástu Jóhannsdóttur (Kynjaðar sjálfsmyndir á Íslandi, landi kynjajafnréttis - Möguleikar og takmarkanir á birtingu kyngervis meðal ungs fólks í Reykjavík 2012-2016) að ungir barnlausir karlar hérlendis líta svo á að taka fæðingarorlofs og náin umhyggja um eigin börn sé hluti af þeirra karlmennskuímynd og er það að öllum líkindum nokkur breyting frá því sem áður var.

Umönnun og umhyggja fyrir eigin börnum virðist hluti af karlmennskuímynd ungra karlmanna í dag.

En til að svara spurningunni má einfaldlega segja að karlmennska sé hugtak sem á að fanga eiginleika karla. Yfirleitt eru þetta þá jákvæðir þættir, það er karlmennska er jákvætt fyrirbæri og það er jákvætt að vera karlmannlegur (að minnsta kosti í íslenskri merkingu). En allir þeir þættir sem sagðir eru vera karlmannlegir, hvort heldur þeir eru jákvæðir eða neikvæðir, eru þættir sem geta einkennt bæði karla og konur.

Myndir:

...