Leyfa hafréttarlög sjórán utan 12 mílna landhelgi eða þarf að fara út fyrir 200 sjómílna efnahagslögsögu? Hvernig myndu íslensk og erlend stjórnvöld bregðast við slíkum "brotum"?Sjóráni eins og því er hefðbundið lýst í þjóðarétti, sbr. nú einkum í 100.-107. gr. Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1982, er þar í nokkuð einfaldaðri útgáfu lýst sem ofbeldisaðgerð manna á sjóræningjaskipi gagnvart öðru skipi á úthafinu eða í öllu falli utan lögsögu einstakra strandríkja. Sérstaða sjóráns felst samkvæmt þessu í því að þó svo að viðkomandi brot eigi sér þannig stað á úthafinu eða utan lögsögu ríkja þá hafa ríki almennt að þjóðarétti skyldu til að reyna að sporna við sjóráni. Öllum ríkjum er því heimilt að taka sjóræningjaskip og ákæra og dæma sjóræningjana eftir eigin landslögum.

Sjóráni er í þjóðarrétti lýst sem ofbeldisaðgerð manna á sjóræningjaskipi gagnvart öðru skipi á úthafinu eða í öllu falli utan lögsögu einstakra strandríkja.

Engin lög, hvorki alþjóðalög né landslög, „heimila“ háttsemi viðlíka og sjórán, hvort heldur sem er innan eða utan íslenskrar landhelgi.