Er hægt að koma í veg fyrir að lúpína vaxi síðar meir á ákveðnu svæði með að slá hana nokkur skipti í röð á því svæði?Alaskalúpína (Lupinus nootkatensis) er viðkvæm fyrir slætti á hásumri. Tilraunir voru gerðar fyrr á árum með að slá lúpínuna á mismunandi tímum frá vori til hausts. Þær leiddu í ljós að hún er viðkvæm fyrir slætti þegar hún er komin í fullan blóma, sem getur verið frá miðjum júní fram í fyrri hluta júlí. Ef slegið er á þessum tíma drepst meirihluti plantnanna og grasvöxtur eykst í kjölfarið. Líklegt er að þetta stafi af því að rótarforði lúpínunnar er lítill á þessum tíma og nær hún ekki að byggja hann upp að nýju fyrir haustið. Ef hins vegar er slegið snemmsumars eða síðsumars verða afföll miklu minni og ná þær að vaxa upp að nýju svo lítið sér á breiðunum árið eftir. Slátt þarf að endurtaka nokkur ár í röð til að tryggja árangur. Þótt gömlu plönturnar drepist við sláttinn þá vaxa oftast nýjar upp af fræforða og geta viðhaldið stofninum ef ekkert er að gert. Mikilvægt er að slá lúpínu eins nærri jarðvegsyfirborði og mögulegt er. Lítið gagn er að slætti uppi á miðjum stöngli. Óþarfi er að fjarlægja lúpínu sem slegin er, hún rotnar og örvar grasvöxt. Slætti verður vart við komið nema á sæmilega sléttu landi, erfitt er um vik í bratta eða á mjög grýttu landi. Mynd:
- Reyðarfjörður, Alaska-Lupine (Lupinus nootkatensis) 6444.JPG - Wikimedia Commons. (Sótt 10.10.2019).