Nýlega rakst ég á orð sem ég er ekki kunnugur úr sóknarlýsingu prests á Norðausturlandi um ca. 1780. Þar stóð: „Fyrir prestinn var borið nýbakað ærláfubrauð". Ekki getið þið útskýrt þetta orð 'ærláfubrauð'?Í Íslenskri orðabók Eddu (2002:873) er við flettiorðið láfa gefin merkingin ‘sköp konu eða kvendýrs’ og orðið sagt grófyrði. Fyrir mörgum árum spurðist ég fyrir um orðið ærláfa í þætti sem þá var reglulega á dagskrá Ríkisútvarpsins og nefndist Íslenskt mál. Ég fékk svör af vestan-, austan- og norðanverðu landinu en engin frá Suðurlandi. Í svörunum kom fram að ærláfa eða ærláfubrauð væri stór og oft ólöguleg kleina en að minni kleina væri nefnd gimbrarláfa. Líkingin er augljós. Mynd:
- FGJ og BSB.