Sæll vertu! Það er nokkuð myndarlegt bú við einn stofugluggann, sem snýr út að veröndinni. Er einhver ástæða til að eyða? Sjálfur er ég ekki hræddur við geitunga - bjó lengi erlendis. Þeir leita ekki inn í húsið þótt allt sé haft opið í steikjandi sólinni. Beztu kveðjur og þakkir! JósepYfir vetrartímann liggja geitungadrottningar í dvala. Hér á landi fara þær yfirleitt aftur á kreik seinnihlutann í maí og leggja þá drög að byggingu bús á hentugum stað. Geitungabúið er síðan „lifandi“ oftast vel inn í ágúst og september en þá afleggur drottningin búið og íbúar þess flosna upp frá því. Eftir það stendur búið autt og er algjörlega hættulaust að fjarlægja það þá. Geitungar nýta aldrei bú frá fyrra sumri aftur árið eftir. Það getur verið erfitt að mæla með því hvenær best er að eyða geitungabúum. Oft kallar fólk í meindýraeyði um leið og bú finnast. Ef búin eru á stöðum þar sem ónæði er af þeim, til dæmis undir palli eða heitum potti eða þar sem börn eru að leik, er mælt með að fjarlægja þau sem fyrst, enda geta geitungar verið ansi árásargjarnir þegar þeir telja sig verða fyrir truflun eða þeim er ógnað.
- Free picture: hornets, nest. (Sótt 11.02.2020).