Af hverju er talað um "að sækja um brauð" þegar prestur sækir um starf sem sóknarprestur?Brauð þekkist hérlendis í merkingunni ‘staða prests’ að minnsta kosti frá fyrsta þriðjungi 18. aldar samkvæmt Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans. Notkunin er hugsalega orðin til fyrir áhrif frá dönsku en í sögulegu dönsku orðabókinni, Ordbog over det danske sprog (ordnet.dk), er ein merking orðsins brød ‘staða eða embætti sem brauðfæðir e-n’, ekki tengd prestum sérstaklega. Á 18. öld er farið að kalla þjónustusvæði presta prestaköll og gátu þau verið afar misjöfn að gæðum eins og sjá má af eftirfarandi dæmi frá 1865 í Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans:
Prestaköllum á Íslandi skal skipta í þessa flokka: 1. Aðalbrauð með 700 rd. tekjum og þar yfir. 2. Betri meðalbrauð með 500–700 rd. tekjum. 3. Lakari meðalbrauð með 350–500 rd. tekjum. 4. Fátæk brauð með minni tekjum en 350 rd. á ári. [rd. = ríkisdalur].Í Íslenskri orðabók (2002:161) er við brauð gefin merkingin ‘prestakall’ en samböndin að sækja um brauð og þjóna brauði eru nokkuð föst í málinu. Mynd:
- Wikimedia Commons. Painting of Magnús Ólafsson. (Sótt 14.8.2019).