Af hverju heitir heftiplástur heftiplástur? Við hvaða hefti er átt?Orðið heftiplástur ‘plástur til að líma umbúðir á sár’ er líklega fengið að láni úr dönsku hæfteplaster seint á 19. öld. Elsta dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er frá 1881 en á timarit.is frá 1901. Orðið er lagað að íslensku sögninni hefta í merkingunni ‘binda, festa saman’ og nafnorðinu plástur. Plástur er ‘dúkræma með lími á annarri hlið og oft grisju til að leggja yfir sár’. Orðið er samkvæmt Íslenskri orðsifjabók (1989:715) upphaflega tökuorð úr miðlágþýsku pläster eða fornensku plaster og þekkist í málinu að minnsta kosti frá 16. öld. Mynd:
- Wikimedia Commons. Dalzo zinc oxide adhesive plaster tin, laboratoires BE Phillips Nossegem, foto2. Eigandi myndarinnar er Ald van Beem. Birt undir leyfinu CC0 1.0. Sótt 15.8.2019).