Heyrði einhvern í viðtalsþætti (um eitthvað allt annað) halda því blákalt fram að það væri ekki lengra síðan en á 10. áratug síðustu aldar sem jarðarbúar voru helmingi færri en í dag - Getur þetta virkilega staðist?Þegar þetta er skrifað, vorið 2020, er talið að jarðarbúar séu um það bil 7,8 milljarðar, helmingi fleiri en þeir voru árið 1973. Í gegnum árþúsundir fjölgaði mannkyninu hægt en síðustu aldir hefur vöxturinn verið gríðarlegur. Rétt eftir 1800 náðu jarðarbúar því að vera einn milljarður. Það tók rúma öld að bæta næsta milljarði við en talið er að árið 1927 hafi íbúar jarðar verið tveir milljarðar. Styttri tíma, eða 33 ár, tók að ná þremur milljörðum en það var árið 1960. Það tók svo 15 ár að komast yfir fjögurra milljarða markið en það gerðist 1975. Síðan þá hafa liðið um 12 ár á milli þess sem nýjum milljarði er náð. Mannkynið fór yfir fimm milljarða 1987, sex milljarða 1999 og sjö milljarða 2011.
- United Nations - Population Division. World Population Prospects. (Sótt 8.5.2020).
- Max Roser, Hannah Ritchie og Esteban Ortiz-Ospina. World Population Growth. Our World in Data. Fyrst birt 2013, uppfært 2019. (Sótt 8.5.2020).