Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Er hægt að spá fyrir um hvort að komandi vetur verður harður eða mildur með lengri fyrirvara? Er einhver fylgni milli t.d. sumars og veturs eða þá milli ára (t.d. ef tveir mildir vetur í röð auki líkur á hörðum vetri).
Því miður er ekki enn hægt með vissu að sjá fyrir fram hvort vetur verður harður eða mildur. Að auki er ekki alltaf alveg á hreinu hvað menn eiga við með „hörðum vetri“. Er einungis verið að vísa til hitafars hans eða kemur annað veðurlag, svo sem illviðratíðni eða snjóalög, einnig við sögu? Fyrir kemur að kaldir vetur eru fremur hægviðrasamir og þurrir. Hitafar á vetrum fylgist gjarnan að um meginhluta landsins, úrkoma gerir það hins vegar ekki. Tíð getur verið snjóasöm og erfið nyrðra eða syðra, en á sama tíma þurr og skikkanleg hinu megin á landinu.
Í því sem hér fer á eftir er til einföldunar einblínt á hitann. Veðurstofan skilgreinir veturinn sem tímann frá desember til mars. Á alþjóðavísu er veturinn að jafnaði þrír mánuðir. Hér á landi er mars alloft kaldasti mánuður vetrarins, það oft að hann telst hér réttilega vetrarmánuður. Rétt kemur fyrir að nóvember eða apríl eru kaldastir, en svo sjaldan að við komumst upp með að telja þá mánuði almennt með hausti og vori fremur en til vetrar.
Snjór yfir nánast öllu landinu. En tíð getur verið snjóasöm og erfið nyrðra eða syðra, en á sama tíma þurr og skikkanleg hinu megin á landinu. Mynd tekin 29. janúar 2004.
Við þekkjum allvel hita árstíðanna hér á landi síðustu 200 ár. Þær hafa allar hlýnað. Vetur hafa hlýnað mest, um 2,4 stig á þessum tíma, sumarið minnst, um 0,7 stig. Hlýnun haust og vor er þarna á milli. Hlýnunin hefur þó ekki átt sér stað jafnt og þétt heldur hefur hún komið í rykkjum, og jafnvel kólnað þó nokkuð á milli. Á þessari öld [þeirri 21.] hefur verið sérlega hlýtt, en aftur á móti var kalt á tímabilinu 1966 til 1995, hlýtt á tímabilinu 1926 til 1965, mjög kalt á tímabilinu 1855 til 1925, en ívið hlýrra þar á undan.
Þó árstíðirnar fylgist ekki alveg að inn í hlýskeið og út úr þeim eru áratugahitasveiflurnar samt í grófum dráttum samhliða. Þetta þýðir að á hlýskeiðum er það oftast þannig að sé sumar hlýtt er veturinn það líka, sama á við um haustið. Þetta hefur áhrif á samband sumar- (eða haust-) og vetrarhita. Hlýju hausti eða sumri fylgi því líklega hlýr vetur. Fylgnin reiknast marktæk. Ef við hins vegar nemum hina almennu hlýnun á brott kemur í ljós að sumar- eða hausthiti segja í raun harla lítið um hita eftirfarandi vetrar, hann virðist að mestu leyti vera frjáls frá því sem á undan fer.
Haustin 1880 og 1917 voru sérlega köld og fylgdu þeim báðum sérlega kaldir vetur. Það er minnisstætt að haustið 1981 var líka sérlega kalt. Freistandi var því að nota „reynsluna“ frá hinum fyrri haustum og gera ráð fyrir sérlega köldum vetri 1981 til 1982. Ekki var hægt að segja að veturinn sá væri hlýr, en hann var engan veginn kaldur. Á eldri tíð rekast menn á haustið 1841, eitt hið kaldasta sem um getur. Veturinn 1841 til 1842 varð þó ekki sérlega kaldur.
Kalt var sumarið 1963 og haustið reyndar líka (miðað við að um hlýskeið var að ræða). Veturinn á eftir (1963 til 1964) varð hins vegar einn hinna allra hlýjustu sem vitað er um.
Hið öfuga, að hann hefni sín fyrir blíðuna gildir almennt ekki heldur þó dæmi megi um það finna. Hlýindin sumarið 1880 voru sérlega óvenjuleg, og á eftir fylgdi hinn illræmdi frostavetur 1880 til 1881, en ámóta hlýjum sumrum síðar hafa ekki fylgt nein harðindi.
Tölfræðilegar reiknikúnstir hjálpa því lítt þegar spá skal fyrir um veður heilla árstíða. Á síðari árum er reynt að reikna árstíðaspár með aðstoð eðlisfræðilegra reikninga. Þeir bjartsýnu halda því fram – kannski með einhverjum rétti – að þó árangurinn sé ekki sérlega góður sé hann samt betri en tilviljun. Mikill vandi felst í framsetningu slíkra spáa. Algengast er að beitt sé svonefndum þriðjunga- eða fimmtungaspám. Giskað er á [spáð] í hvaða þriðjungi (eða fimmtungi) tölfræðilegrar dreifingar síðustu 20 til 30 ára hiti, úrkoma, sjávarmálþrýstingur og fleiri veðurþættir komandi vetrar muni lenda. Vilji menn spá um veðurlag komandi vetrar er sennilega vænlegast að giska á sama dreifingarþriðjung og líkanspárnar, betra en að skjóta af handahófi á einhvern þeirra. Fimmtungaspárnar eru eðli málsins samkvæmt nákvæmari – en að sama skapi vafasamari. Það er erfiðara að giska rétt þegar fimm valkostir eru í boði heldur en þegar þeir eru þrír.
Skipti milli hlýskeiða annars vegar og kuldaskeiða hins vegar hafa reynst nokkuð snörp hér á landi. Líklega gefst best á hlýskeiðum að forðast að spá köldum vetrum, giska heldur á meðalvetur eða hlýjan. Á kuldaskeiðum gefst hins vegar best að spá aldrei hlýjum vetri, einungis köldum eða í meðallagi. Niðurstaðan, þó hún kunni að reiknast marktæk, er samt í reynd alltaf óviss.
Myndin sýnir samband hita haustsins og eftirfylgjandi vetrar í Stykkishólmi 1824 til 2020. Búið er að fjarlægja langtímahneigð úr gögnunum. Láréttar og lóðréttar strikalínur sýna þriðjungamörk. Þau greina að kaldar árstíðir, hlýjar og þær sem eru í meðallagi. Við sjáum að ívið meiri líkur eru á því að hlýr vetur fylgi hlýi hausti heldur en að kaldur vetur geri það (mörg dæmi eru þó um annað). Sama á við um að kaldur vetur fylgi köldu hausti, líkur á slíku eru heldur meiri en þær að hlýr vetur fylgi köld hausti. Reiknaður fylgnistuðull milli vetrarhita og hitans haustið áður er þó ekki nema 0,3 – fylgnin er marktæk, en spágildi lítið sem ekkert. Sé myndin tekin bókstaflega eru líkur á hlýjum vetri eftir kalt haust þó meiri heldur en á köldum vetri eftir hlýtt haust.
Trausti Jónsson. „Er hægt að spá fyrir um hvort komandi vetur verður harður eða mildur?“ Vísindavefurinn, 25. september 2020, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77697.
Trausti Jónsson. (2020, 25. september). Er hægt að spá fyrir um hvort komandi vetur verður harður eða mildur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77697
Trausti Jónsson. „Er hægt að spá fyrir um hvort komandi vetur verður harður eða mildur?“ Vísindavefurinn. 25. sep. 2020. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77697>.