Í Njálu stendur að Kári Sölmundarson væri með skjöld sem á væri mynd af ljóni. Hvernig átti Kári Sölmundarson að vita hvernig ljón liti út?Spurt er um eftirfarandi stað í Njálu:
Skarphéðinn var fremstur. Hann var í blám stakki og hafði törguskjöld og öxi sína reidda um öxl. Næst honum gekk Kári. Hann hafði silkitreyju og hjálm gylltan, skjöld og var dreginn á leó.Spurningin er í raun tvíþætt: Annars vegar hvernig Kári Sölmundarson gat vitað hvernig ljón litu út, og þar með hvaða dýr hann hefði á skildi sínum; hins vegar hvað höfundur Njálu kann að hafa vitað um ljón, þar sem vitneskja okkar um skjöld Kára er alfarið fengin úr Njálu. Til að fá sem fyllsta mynd verður að svara báðum hlutum spurningarinnar. Þegar Kári Sölmundarson kemur til sögunnar um miðbik Njálu er sagt að hann sé hirðmaður Sigurðar jarls í Orkneyjum, og færir Kári Njálssyni á fund jarlsins eftir að hann hefur veitt þeim liðsinni í orrustu. Þetta atriði eitt og sér kann að vera nægileg skýring þess að Kára áskotnast skjöldur með ljónsmerki á. Ljónið var þekkt táknmynd á Bretlandseyjum sem og í Evrópu. Nokkru eftir sögutíma Njálu verður ljónið að tákni Ríkharðs I. Englandskonungs, sem ríkti frá 1189-1199, og síðar verður ljónið að táknmynd Englands. Frá fornu fari er ljónið sagt vera konungur dýranna og því fer vel á því að konungur velji sér slíka táknmynd. Að öllum líkindum munu fleiri konungar og jarlar hafa tengt sig við ljónið og því ekki ósennilegt að hirðmanni þeirra myndi áskotnast skjöldur með viðlíka merki. Annað höfuðeinkenni ljónsins sem menn vildu tengja sig við er hugprýði þess og óttaleysi, og því er ljónið iðulega nefnt hið óarga dýr (hið óttalausa dýr) í forníslenskum textum fremur en leó eða ljón. Af hinu fyrstnefnda kemur svo orðið óargadýr sem í nútímamáli merkir hættulegt villidýr. Dvöl Kára á Bretlandseyjum ætti því ein sér að duga honum til að þekkja ljónsmynd á skildi. Ekki gengur þó að láta sem spurningunni sé svarað með því að benda eitthvert annað, svo enn stendur eftir spurningin sem nú skal svarað: Hvernig gátu Bretar, svo ekki sé minnst á höfund Njálu, vitað hvernig ljón litu út? Þó að Bretar hefðu auðvitað engu frekar beina vitneskju um útlit ljóna en Íslendingar, þá var í Bretlandi mjög rík hefð fallegra myndskreyttra dýrafræðirita, þar sem goðsagnakennd dýr og raunveruleg dýr eru skrásett í bland og talin jafnraunveruleg: fílar innan um dreka, ljón innan um einhyrninga (sem, af lýsingum að dæma, eru bersýnilega nashyrningar). Þessi hefð nær aftur til gríska dýrafræðiritsins Physiologus (ísl. Náttúrufræðingurinn) sem talið er ritað í Alexandríu á annarri öld eftir Krist. Physiologus, líkt og sú dýrafræði miðalda sem af honum sprettur, lýsir fyrst eiginleikum dýrs en túlkar síðan þessa eiginleika í samræmi við ritninguna. Höldum okkur við ljónið sem dæmi. Ljónið er iðulega sagt hafa þrenna náttúru: sjái ljón að því sé veitt eftirför þá þurrkar það út spor sín með rófunni; það sefur ætíð með augun opin; loks fæðast ungar þess dauðir en lifna við á þriðja degi þegar móðirin andar framan í þá eða faðirinn öskrar yfir þeim. Fleiri einkenni mætti telja, svo sem að ljónið ræðst ekki á varnarlausan mann og að það drepur aðeins sakir hungurs. Kristilega útlegging þessara eiginleika er á þá leið að ljónið feli slóð sína á sama hátt og Kristur duldi guðlega náttúru sína öllum nema fylgjendum sínum; að þegar ljónið sofi með augun opin líki það eftir Kristi, líkamlega dauðum eftir krossfestinguna en andlega lifandi sakir guðlegrar náttúru sinnar; að ljónið endurlífgi unga sína líkt og Guð vakti Krist á þriðja degi í grafhýsi sínu. Aðrir eiginleikar ljónsins, svo sem að það ræðst ekki á varnarlausan mann og annað í þeim dúr, táknar það hvernig fólki sé best að lifa: að láta ekki reiðast auðveldlega og vera fljótt til fyrirgefningar. Allt eru þetta dyggðir sem sæma konungum, og höfuðlíkingin er auðvitað við hinn almesta konung Jesú Krist.

Ljónið sefur með augun opin. Úr Bibliothèque Nationale de France, fr. 1951, fol. 32r, frá 13.-14. öld.

„Elephans heitir dýr á látínu en á óra tungu fíll. Þat er haft í orrustum á útlǫndum.“ Úr íslenskum Physiologus, AM 673 a II 4to, fol. 7r, frá um 1200.
- AM 673 a II 4to, Handrit.is, vefslóð: https://handrit.is/en/manuscript/view/is/AM04-0673a-II.
- Barber, Richard (útg.), Bestiary: being an English version of the Bodleian Library, Oxford M.S. Bodley 764 with all the original miniatures reproduced in facsimile (Lundúnum: Folio Society, 1992).
- Corazza, Vittoria Dolcetti, „Crossing Paths in the Middle Ages: the Physiologus in Iceland,“ The Garden of Crossing Paths: The Manipulation and Rewriting of Medieval Texts. Ritstj. Marina Buzzoni o.fl. (Feneyjum: Libreria Cafoscarina, 2005), bls. 225-48.
- Halldór Hermannsson (útg.), The Icelandic Physiologus (Íþöku, NY: Cornell University Press, 1938).
- The Medieval Bestiary, vefslóð: http://bestiary.ca.
- Vésteinn Ólason, „Hver skrifaði Njálu og hvenær var hún skrifuð?“. Vísindavefurinn, 4. ágúst 2000. Sótt 4. júní 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=731.