Átti Danakonungur (Kristján tíundi) systkini? Hvað var hann gamall árið 1944 og hvernig leit hann út?Þegar Ísland fékk sjálfstæði 1944 sat Kristján 10. á valdastóli í Danmörku. Hann var fæddur 26. september 1870 og var því 74 ára þegar Íslendingar sögðu endanlega skilið við Dani. Kristján var elsta barn Friðriks 8. og konu hans Lovísu, dóttur Karls 15. Svíakonungs. Eins og gjarnan er með konungborið fólk var honum gefið virðulegt og langt nafn: Christian Carl Frederik Albert Alexander Vilhelm. Kristján var fyrsti danski ríkisarfinn til þess að ljúka stúdentsprófi en eftir skólagöngu gekk hann í herinn eins og prinsar gerðu gjarnan á þeim tíma. Kristján kvæntist Alexandrínu af Mecklenburg-Schwerin árið 1898 og eignuðust þau tvo syni, sá eldri þeirra var Friðrik faðir Margrétar núverandi Danadrottningar. Kristján varð krónprins árið 1906 þegar afi hans Kristján 9. féll frá og faðir hans tók við dönsku krúnunni sem Friðrik 8. Við lát föður síns árið 1912 tók Kristján við krúnunni sem Kristján 10. og var við völd til dauðadags 1947. Hann var því konungur bæði þegar Íslendingar fengu fullveldi og sjálfstæði. Kristján átti sjö systkini, þrjá bræður og fjórar systur. Hægt er finna upplýsingar um systkini hans á ýmsum vefsíðum og í öðrum heimildum. Næstur Kristjáni í aldri var Karl. Hann hét fullu nafni Christian Frederik Carl Georg Valdemar Axel (1872-1957) og varð fyrsti konungur Noregs eftir sambandsslit við Svíþjóð árið 1905 og tók þá heitið Hákon 7. Kona hans var Maud, dóttir Játvarðar 7. Bretlandskonungs og barnabarn Viktoríu drottningar. Þau eignuðust einn son sem síðar varð Ólafur 5. Noregskonungur. Þriðja í systkinaröðinni var Lovísa (Louise Caroline Josephine Sophie Thyra Olga, 1875-1906). Hún giftist þýska prinsinum Friðrik af Schaumburg-Lippe og eignuðust þau þrjú börn. Hún náði ekki háum aldri, var aðeins 31 árs þegar hún lést. Fjórði í röðinni var Haraldur (Harald Christian Frederik, 1876-1949), foringi í danska hernum. Hann gekk að eiga frænku sína Helenu af Slésvík-Holstein-Sonderborg og Glúkksborg og áttu þau fimm börn. Sú fimmta var Ingeborg (Ingeborg Charlotte Caroline Frederikke Louise, 1878-1958). Hún varð sænsk prinsessa þegar hún giftist frænda sínum Karli hertoga af Vestur-Gotlandi sem var sonur Óskars 2. Svíakonungs. Ingeborg og Karl eignuðustu fjögur börn, og meðal afkomenda þeirra eru Haraldur Noregskonungur og Filippus konungur Belgíu. Á eftir Ingeborg kom Thyra (Thyra Louise Caroline Amalie Augusta Elisabeth, 1880-1945). Hún var ógift og barnlaus.

Kristján 10. ásamt foreldrum og systkinum. Efri röð frá vinstri: Friðrik 8. og prinsarnir Kristján og Karl (seinna Hákon 7. Noregskonungur). Sitjandi frá vinstri: prinsessurnar Ingeborg, Lovísa og Thyra, Lovísa drottning og prinsinn Haraldur. Yngstu börnin tvö, Gústaf og Dagmar, voru ófædd þegar myndin var tekin árið 1887.
- Christian X of Denmark - Wikipedia.
- King Christian X of Denmark | Unofficial Royalty.
- King Christian X Of Denmark : Family tree by comrade28 - Geneanet.
- Mynd af Kristjáni 10.: Christian X of Denmark cph.3b31328.jpg (Sótt 18.6.2019).
- Fjölskyldumynd: Family of King Frederik VIII, Queen Lovisa and children | Glucksburg. (Sótt 19.6.2019).