Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Heimkynni melgresisins (Leymus arenarius) eru við Atlantshafs- og Eystrasaltsströnd Mið- og Norður-Evrópu og austur eftir Íshafsströnd Rússlands skammt austur fyrir Úralfjöll. Það er einnig bæði í Færeyjum og Jan Mayen. Önnur skyld tegund, dúnmelurinn (Leymus mollis), er ríkjandi vestanhafs, bæði á Grænlandi og með ströndum Kanada og Alaska yfir Beringssund til Kamtsjatka og Japan. Stofnar melgresis á Íslandi eru taldir fremur ungir í landinu.[1]
Melgresi er stórvaxið, fjölært og afar grófgert gras, með 12-20 cm löngu og 10-18 mm breiðu axi á stráendanum. Smáöxin eru oftast þríblóma en stundum með fjórða blómið sem er þá gelt. Axagnirnar eru lensulaga, oddmjóar, 15-25 mm langar, ljósgrágrænar, oft lítið eitt hærðar. Blómagnirnar eru einnig lensulaga, grágrænar, kafloðnar, þær neðstu nærri jafnlangar og axagnirnar, þær efri styttri, oddhvassar en týtulausar. Blómin hafa þrjá fræfla með 5-7 mm langa, gulbrúna eða fjólubláa frjóhnappa og eina frævu með löngu, fjaðurhærðu fræni. Fræið er brúnt, aflangt, 8-10 mm langt. Stráin eru afar sterkleg, 2-7 mm í þvermál, hárlaus og mjúk. Blöðin eru breið, 5-10 mm, en verpast upp frá hliðunum í þurrki, blöð blaðsprota eru oft mjórri. Rótarkerfi er gríðarlega mikið og víðfeðmt, með innræna svepprót.
Melgresi.
Melgresi er mjög auðþekkt frá öllum íslenskum grösum, bæði á mjög grófu axi og á stífum, ljósgráum blöðum sem í þurrki eru samanbrotin. Það líkist hins vegar mjög dúnmel, Leymus mollis (Trin) Pilg., sem er aðflutt tegund og lítið eitt ræktuð. Melgresi þekkist frá honum á því að stráin eru alveg hárlaus uppi við axið þar sem dúnmelurinn er aftur á móti loðinn af örstuttu hárlagi. Litningatalan er 2n=56.
Melgresið vex einkum í malar- og sandfjörum kringum allt landið, mikið er af því alls staðar þar sem foksandur er ofan fjöru og einnig langt inn í landi þar sem sendið er, bæði á öræfunum og í byggð. Á öræfunum er áberandi hvað það fylgir móbergssvæðinu þar sem sendnast er en sést annars nánast ekkert til fjalla. Það finnst allt frá láglendi upp í 800 m hæð, hæst skráð við Urðarháls norðan Vatnajökuls í um 850 m hæð. Nokkur munur er á standstofnum melgresis og stofnum inni í landi, m.a. með tilliti til saltþols og spírunarhegðunar fræja.[2]
Melgresið myndar innræna svepprót sem líklega skiptir mjög miklu máli fyrir vöxt og afkomu á erfiðu búsvæði. Rannsóknir hér á landi benda til þess að það líði nokkur ár frá því að plantan kemst á legg þar til svepprótin hefur myndast.[3][4] Kímplöntur sýna sérstaka aðlögun að hinu erfiða búsvæði í því að þær eru sérlega öflugar í að brjótast upp í gegnum lausan sand.[5]
Nafngiftir tegundarinnar og einstakra plöntuhluta hennar eru mjög margar og lýsir Steindór Steindórsson þeim ítarlega í bók sinni um íslensk plöntunöfn.[6] En algengustu nöfnin, auk melgresis, eru melur og melgras sem bæði eru notuð í fyrstu útgáfu Flóru Íslands. Melfjöður, melstöng og sandgras eða sandhafrar eru einnig nokkuð útbreidd nöfn.
Melgresi.
Melgresið hefur lengi verið til margs konar nytja, meðal annars sem korn til manneldis. Strax í Njálu segir frá því að menn skáru mel og í máldögum kristbúa frá 12.-13. öld er melur talinn til hlunninda. Notkun melgresis var langútbreiddust í Vestur-Skaftafellssýslu og þar hafa varðveist sérstök og óvenjuleg orð sem tengjast verkun melgresis eða voru notuð yfir tiltekna hluta þess.[7] Ræturnar voru ofnar í reiðingsdýnur og reipi og notaðar í saumband, mjólkurþvögur, strokksíur og fleira.[8]
Melgresi er langöflugasta landgræðsluplanta Íslands og sú eina sem dugar til að binda óheft sandfok enda hefur uppgræðslustarf Landgræðslu ríkisins frá upphafi byggst mikið á þessari kröftugu og harðgerðu plöntu.[9] Í nýlegri rannsókn á fæðuvali ísbjarna við Hudsonflóa í Kandada kom í ljós að þeir átu talsvert af melkorni.[10]
Í Ferðabók Eggerts og Bjarna segir frá melgresi víða um landið og þess er sérstaklega getið hversu vel það þroskist í Haffjarðarey. Melgresið var einnig skráð eftir safni Königs frá 1765 undir nafninu Elymus arenarius.
Tilvísanir:
^ Sigurður Greipsson & A.J. Davy 1994. Germination of Leymus arenarius and its significance for land reclamation in Iceland. Annals of Botany 73(4), 393-401.
^ Úlfur Óskarsson 2006. Melgresi og svepprætur – samlífi og sundurlendi. Í: Fræðaþing landbúnaðarins 2006, 421-424.
^ Steindór Steindórsson 1978. Íslensk plöntunöfn. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík, 207.
^ Þóra Ellen Þórhallsdóttir 2015. Saga gróðurs og umhverfis á Brunasandi. Í: Brunasandur: Mótun lands og samfélags í yngstu sveit á Íslandi (ritstjóri Jón Hjartarson). Sögufélag Vestur-Skaftfellinga, Reykjavík, 71-140.
^ Guðrún Bjarnadóttir 2017. Hefðbundnar grasnytjar á Íslandi með samanburð við Noreg og nágrannalönd. Landbúnaðarháskóli Íslands, Umhverfisdeild, 159.
^ Sveinn Runólfsson 1988. Íslenska melgresið. Í: Græðum Ísland. Landgræðslan 80 ára, A. Arnalds ritstj. Landgræðsla ríkisins, Reykjavík, 131-138.
Þetta svar er fengið úr bókinni Flóra Íslands. Blómplöntur og byrkningar eftir Hörð Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóru Ellen Þóhallsdóttur. Vaka-Helgafell gaf bókina út 2018. Svarið er birt með góðfúslegu leyfi höfunda og útgefanda. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.
Hörður Kristinsson (1937-2023), Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Jón Baldur Hlíðberg. „Hvað er melgresi og vex það víðar en á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 21. febrúar 2022, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77573.
Hörður Kristinsson (1937-2023), Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Jón Baldur Hlíðberg. (2022, 21. febrúar). Hvað er melgresi og vex það víðar en á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77573
Hörður Kristinsson (1937-2023), Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Jón Baldur Hlíðberg. „Hvað er melgresi og vex það víðar en á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 21. feb. 2022. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77573>.