Hversu kalt var á Íslandi árið 1944?Mikil breyting varð á tíðarfari hér á landi upp úr 1920. Mest munaði um hversu mikið hlýnaði, en úrkoma varð einnig heldur meiri en áður, snjóalög urðu minni og hríðarveðrum fækkaði. Hafís varð mun minni við strendur landsins en hafði verið um langt skeið. Þrátt fyrir þetta var talsverður munur á veðurlagi frá ári til árs, sum ár þóttu umhleypingasöm og óhagstæð atvinnuvegum, en fleiri voru hagstæð. Hlýnunin var svo mikil að lítill munur var á hita köldustu áranna eftir umskiptin og þeirra hlýjustu fyrir þau. Þó hlýindin stæðu í full 40 ár, alveg fram á sjöunda áratuginn var síðari hluti þeirra almennt ekki alveg jafnhlýr og sá fyrri. Mjög hlýjum sumrum fækkaði fyrr en hlýjum vetrum. Árið 1943 var á landinu það kaldasta sem komið hafði í nærri 20 ár og veðurlag heldur hryssingslegt lengst af. Sumarið var til dæmis sérlega kalt á Norðurlandi og hafís ekki fjarri ströndum landsins. Sá uggur lagðist að mönnum að nú væri hlýskeiðinu að ljúka. Svo var þó ekki. Árið 1944 varð öllu hagstæðara, en samt var það í flokki þeirra svalari á hlýskeiðinu fram að því. Tíðarfarið var frekar umhleypingasamt nema í júlí og framan af ágústmánuði, þá var einmuna góð tíð. Þegar við hugsum til baka til ársins 1944 ættum við að hafa í huga að heimsstyrjöldin síðari var enn í fullum gangi og landið hernumið, en töluverður efnahagsuppgangur tengdur hernum. Styrjöldin hafði áhrif á allt mannlíf. Dagana 18. til 22. júlí gerði óvenjulega hitabylgju um stóran hluta landsins. Það var misjafnt eftir stöðvum hvaða dagur varð hlýjastur. Hæst komst hitinn í 26,7 stig í Síðumúla í Borgarfirði þann 21. og sama dag mældist hitinn 26,5 stig á Þingvöllum. Þetta reyndist hæsti hiti ársins. Í Reykjavík fór hitinn þessa daga hæst í 22,3 stig og 23,1 stig á Víðistöðum í Hafnarfirði. Mánuði áður, þann 23. júní hafði hiti komist í 26,0 stig á Akureyri. Veðurathugunarmaður í Papey segir hámarkshita þar hafa komist í 22,0 stig þann 19. júlí - en ekki hefur það staðið lengi, slíkur hiti er mjög óvenjulegur þar um slóðir. Dægursveifla hitans var mikil þessa daga inn til landsins. Veðurathugunarmaður á Hallormsstað segir til dæmis þann 17. að kartöflugras hafi skemmst. Lágmarkshiti næturinnar þar var 0,2 stig, en hámarkshiti dagsins varð 25,0 stig. Aðra mjög væna hitabylgju gerði snemma í ágúst. Nokkrir óvenjuhlýir dagar komu líka í september. Mesta frost ársins mældist í Núpsdalstungu í Miðfirði þann 9.janúar, -23,5 stig. Morguninn eftir mældist frostið í Reykjavík -15,4 stig. Í lok júlímánaðar, eftir að hitabylgjunni lauk komu fáeinar mjög kaldar nætur og fraus jafnvel á nokkrum stöðvum. Mesta frostið mældist -4,0 stig í Núpsdalstungu að morgni þess 27. Sama morgun fór hiti niður í 0,5 stig á Akureyri, það næstlægsta sem þar hefur nokkru sinni mælst í júlímánuði. Næturfrost gerði einnig í byggð í ágúst. Þurrt var um landið norðanvert í febrúar og mars, og víðast hvar á landinu í júní og júlí. Júlí er einn hinn þurrasti sem vitað er um á landinu norðaustanverðu. Ágúst var úrkomusamari og mjög úrkomusamt var vestanlands í október. Nóvember var í þurrara lagi. Lægsti loftþrýstingur ársins mældist á Eyrarbakka 18. janúar, 941,9 hPa, en hæstur á Akureyri 25. febrúar 1046,3 hPa. Veturinn 1943—44 (des — mars) var frekar umhleypingasamur, snjólétt var framan af, en mikill snjór um miðjan vetur (janúar til febrúar). Vorið (apríl — maí) var óhagstætt og umhleypingasamt. Hafís var fyrir Norðurlandi og Vestfjörðum fram eftir vori. Sumarið (júní — sept) var óhagstætt framan af, og fór gróðri seint fram. Tíðin breyttist mjög til batnaðar seint í júní og varð sérstaklega hagstæð til heyskapar og nýttust hey með afbrigðum vel. Haustið (okt — nóv) var umhleypingasamt og kalt en frekar snjólétt. Nánar má lesa um veðrið árið 1944 í pistil höfundar á bloggsíðu hans Hungurdiskar þar sem fjallað er um tíðarfar hvers mánaðar fyrir sig. Þar má meðal annars sjá að nokkrir skipsskaðar urðu vegna ofsaveðurs, þök fuku af húsum, hafís lokaði siglingaleiðum og í nóvember var alhvít jörð í Reykjavík í 21 dag. En einnig er skemmtileg tilvitnun í skrif um hitabylgjuna í júlí þar sem fólk er meðal annars hvatt til að gæta hófs og muna það vel að sofa ekki úti í brennandi sólarhita. Myndir: Úr pistil höfundar á bloggsíðunni Hungurdiskar.
Útgáfudagur
10.9.2019
Spyrjandi
Júlía
Tilvísun
Trausti Jónsson. „Hvernig var veðrið á Íslandi árið 1944?“ Vísindavefurinn, 10. september 2019, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77546.
Trausti Jónsson. (2019, 10. september). Hvernig var veðrið á Íslandi árið 1944? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77546
Trausti Jónsson. „Hvernig var veðrið á Íslandi árið 1944?“ Vísindavefurinn. 10. sep. 2019. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77546>.