Hvaðan kemur nafnið Orla? Heita fleiri Íslendingar Orla? Er það karlmannsnafn eða kvenmannsnafn? Sonur hans Valdimars Bryde hét Orla. Hverjir voru þessir verslunamenn á Borðeyri? Orla er Írskt nafn, en ég hélt kvennanafn?Johan Christian Waldemar Bryde (1835–1902) var danskur kaupmaður á Borðeyri, Strandasýslu, frá 1860 til 1861 en fluttist þá aftur til Danmerkur. Sonur hans, Orla, fæddist í Kaupmannahöfn 1871 og virðist eftir dönskum heimildum ekki hafa búið á Borðeyri. 1. janúar 2017 var einn karl skráður Orla að einnefni eða fyrra nafni í þjóðskrá með íslenskt ríkisfang. Í Danmörku er Orla karlmannsnafn og er rakið til kappa í Ossíansljóði James Macpherson frá 1760.

Nafnið Orla var nokkuð notað í Danmörku á nítjándu öld. Þá var stjórnmálamaðurinn Orla Lehmann (1810–1870) afar vinsæll.
- Eva Villarsen Meldgaard. 1998. Den store navnebog. Aschehoug Fakta, København.
- Wikimedia Commons. Orla Lehmann by George E. Hansen. (Sótt 15.8.2019).