Öll spurningin frá Foldaskóla var svona: Nemandi í Foldaskóla, Eiríkur Ísak Magnússon í 5. HR spyr: Af því að manneskjan sér ekki loft, sér fiskur þá vatn? Spurningin er: Sjá fiskar vatn? Með bestu kveðju, Kristín námsráðgjafi í Foldaskóla.Stutta svarið er nei; líkt og við sjáum ekki andrúmsloftið í kringum okkur. Fiskarnir og við sjáum aðeins ójöfnur í ljóseiginleikum í umhverfi okkar. Við sjáum skýin fyrir ofan okkur. Þau eru safn örsmárra vatnsdropa sem skera sig úr loftkenndu umhverfinu með ljóseiginleika sem við köllum brotstuðul. Hann ræðst af hraða ljóssins í efninu. Þar sem brotstuðull breytist snögglega kemur fram speglun á ljósgeislum. Hluti ljósgeislanna kastast af ójöfnunni (speglast) en hinn hlutinn fer inn í nýja efnið en getur líka breytt um stefnu. Annað dæmi sem við þekkjum úr umhverfi okkar eru ljósstafir sem falla inn um óhreinan glugga inn í rökkvað herbergi. Rykagnir í herberginu dreifa ljósinu í allar áttir. Við sjáum ljósleiftur frá rykögnum raðast í beinar línur þegar agnirnar beina ljósinu í augu okkar.

Fiskar sjá ekki vatn, líkt og við sjáum ekki andrúmsloftið í kringum okkur. Þeir sjá aðeins ójöfnur í ljóseiginleikum í umhverfinu.