Hver er þyngd og lengd afkvæmis beinhákarls?Beinhákarlar (Cetorhinus maximus) eru stærstu fiskar sem finnast hér við land. Fullorðnir beinhákarlar verða mest um 10 m á lengd en sagnir eru um stærri skepnur, allt að 15 metrar að lengd en það eru óstaðfest tilvik. Algengasta stærð beinhákarla sem hafa veiðst hér við land er um 7 metrar. Þyngdin er venjulega á bilinu 3-6 tonn. Beinhákarlar er ein þriggja tegunda hákarla sem eru ekki ránfiskar heldur svifætur líkt og hvalháfur (Rhincodon typus) og gingapi (Megachasma pelagios). Beinhákarlar halda til úti á rúmsjó yfir veturinn en þegar hlýna tekur í hafinu koma þeir nær landi og lifa þar á dýrasvifi í efstu lögum sjávar. Lítið er vitað um æxlunarlíffræði beinhákarla. Beinhákarlar gjóta ungum en ekki eggjum eða pétursskipum eins og flestir aðrir hákarlar. Ekki er ljóst hversu löng meðgangan er en talið að hún sé meira en ár og jafnvel allt að 24-36 mánuðir. Eins er ekki mikil vitneskja um afkvæmin en þó er vitað að þau eru á bilinu 150-200 cm á lengd við got. Minnsti beinhákarl sem hefur veiðst hér við land er 160 cm. Þessi takmarkaða vitneskja er meðal annars vegna þess að ekki er algengt að sjómenn eða vísindamenn rekist á ungafulla hrygnu. Aðeins er eitt skráð tilfelli með vissu að ólétt hrygna beinhákarls hafi veiðst. Þessi hrygna var með sex ófædd afkvæmi. Því er talið líklegt að í hverju goti séu ekki mjög mörg afkvæmi. Heimildir og mynd:
Hversu stór eru nýfædd afkvæmi beinhákarla?
Útgáfudagur
2.5.2019
Spyrjandi
Samúel Óli Pétursson
Tilvísun
Jón Már Halldórsson. „Hversu stór eru nýfædd afkvæmi beinhákarla?“ Vísindavefurinn, 2. maí 2019, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77204.
Jón Már Halldórsson. (2019, 2. maí). Hversu stór eru nýfædd afkvæmi beinhákarla? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77204
Jón Már Halldórsson. „Hversu stór eru nýfædd afkvæmi beinhákarla?“ Vísindavefurinn. 2. maí. 2019. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77204>.