Ég hnaut um eitt orð í samheitaorðabók um daginn - en það var orðið ferðasúpa með samheitinu sultarsúpa. Hvað þýðir þetta orð nákvæmlega? Hvað er ferðasúpa?Einu dæmin sem ég hef fundið um ferðasúpu og sultarsúpu eru í Riti þess Islendska Lærdóms-Lista Felags sem gefið var út á árunum 1781–1798. Orðin eru í XII. bindi, bls. 167. Þaðan hefur sultarsúpa væntanlega verið tekin með í Íslensk-danska orðabók Sigfúsar Blöndals (1920–1922:819) og merkingin sögð ‘mager suppe’. Vísað er í ferðasúpu sem þó er ekki fletta á sínum stað heldur í viðbæti aftast í bókinni (bls. 1018). Bæði orðin eru inni í Íslenskri orðabók handa skólum og almenningi, annarri útgáfu, og er merkingin við sultarsúpa sögð ‘soðhlaup af keti og beinum’ (1983:994) en við ferðasúpa stendur ‘1 súpa til að hafa með í ferðalög. 2 sultarsúpa’ (bls. 200).

Við ferðasúpa, í Íslenskri orðabók handa skólum og almenningi, stendur ‘1 súpa til að hafa með í ferðalög. 2 sultarsúpa’ (bls. 200).
- Wikimedia Commons. Campbell's (Andy Warhol Special edition). Eigandi myndarinnar er Jonn Leffmann. Birt undir CC BY 3.0-leyfi Creative Commons. (Sótt 29.3.2019).