Hver er uppruni orðasambandins „að lofa upp í ermina“? Af hverju ermi?Orðasambandið að lofa einhverju upp í ermina sína þekkist í málinu frá miðri 19. öld. Elsta dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr blaðinu Norðra frá 1859:
jeg lofaði því upp í ermina mína að finna ykkur.Frá svipuðum tíma er að lofa einhverju upp í ermina á sér. Einnig er frá svipuðum tíma talað um að lofa upp í ermi sína án þágufallsandlags. Elst dæmi um það er úr tímaritinu Skírni frá 1865:
hjeldu þá margir, að hann lofaði upp í ermi sína.Líkingin er óljós. Í Íslensku orðtakasafni (1968:129–130) getur Halldór Halldórsson sér þess til að hún sé dregin af loddaralistum og tekur Jón G. Friðjónsson (Mergur málsins 2006:174) undir þann möguleika með fullri varúð þó. Orðasambandið virðist ekki eiga sér erlenda samsvörun. Heimildir:
- Halldór Halldórsson. 1968. Íslenzkt orðtakasafn I–II. Almenna bókafélagið, Reykjavík.
- Jón G. Friðjónsson. 2006. Mergur málsins. Mál og menning, Reykjavík.
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
- Pixabay. (Sótt 1.4.2019).