Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Góðan daginn! Ég er nemandi í 10. bekk og við eigum að gera verkefni um Maó Zedong. Við vorum að velta fyrir okkur hvort hann hefði gert eitthvað gott eða látið eitthvað gott af sér leiða í valdatíð sinni eða fyrir sína þjóð?
Mao Zedong (1893-1976) hefur löngum verið umdeildur, jafnt dáður sem hataður, en í seinni tíð hefur það viðhorf rutt sér til rúms á Vesturlöndum að hann hefði verið engu skárri en Adolf Hitler og Jósef Stalín í grimmd sinni og skipulögðum fjöldamorðum. Bókin Mao: The Unknown Story eftir Jung Chang og Jon Halliday, sem út kom árið 2005, átti stóran þátt í mótun þess viðhorfs. Þar er því haldið fram að hið eina sem Mao hafi stefnt að allt sitt líf væri að komast til valda og að hann hafi í raun verið tilbúinn til að fórna stórum hluta þjóðar sinnar fyrir þetta markmið. Niðurstaða bókarinnar er því sú að Mao gerði ekkert gott fyrir þjóð sína. Á Íslandi er þetta viðhorf ekki síður útbreitt vegna þess að umrædd bók var valin til þýðingar og kom út á íslensku árið 2007 undir titlinum Maó: Sagan sem aldrei var sögð.
Mao Zedong hefur löngum verið umdeildur, jafnt dáður sem hataður, en í seinni tíð hefur það viðhorf rutt sér til rúms á Vesturlöndum að hann hefði verið engu skárri en Adolf Hitler og Jósef Stalín í grimmd sinni og skipulögðum fjöldamorðum.
Rit þetta var vel markaðssett, það seldist vel og hefur þannig verið afar áhrifaríkt. Á því eru hins vegar alvarlegir gallar. Sá alvarlegasti er líkast til sá að höfundar gefa sér fyrirfram að Mao hafi verið illur í eðli sínu og haga síðan öllum málflutningi sínum til að styðja þá niðurstöðu. Það gerir meðal annars að verkum að meðferð heimilda er mjög ábótavant og fjölmargar staðhæfingar höfunda óáreiðanlegar. Því er óheppilegt að svo vafasamt rit hafi verið valið til þýðingar á íslensku fremur en eitthvert hinna fjölmörgu rita á ensku og öðrum tungumálum sem fjalla um líf Mao Zedong með hlutlægari og vísindalegri hætti, til dæmis verk Philip Short eða Jonathan Spence.
Fræðimenn eru þó allir sammála um að Mao beri persónulega ábyrgð á tveimur alvarlegum harmleikjum í Kína: annars vegar „stóra stökkinu framávið“ sem átti að hraða iðnaðaruppbyggingu í Kína á árunum eftir 1958 en leiddi þess í stað til stórfelldrar hungursneyðar; hins vegar menningarbyltingunni sem hófst 1966 og fól í sér víðtækar ofsóknir á hendur ýmsum þjóðfélagshópum með niðurlægingu þeirra, pyntingum og jafnvel morðum. Í hungursneyðinni kann að vera að yfir 30 milljón manns í sveitum landsins hafi farist og ljóst er að Mao sýndi með aðgerðum sínum á þessum tíma ómælt skeytingarleysi. Tala látinna í ofsóknum menningarbyltingarinnar skipti að öllum líkindum þúsundum. Raunar batt Mao sjálfur enda á byltinguna, eða dró að minnsta kosti verulega úr drifkrafti hennar, þegar honum varð loksins ljóst að hún var löngu komin úr böndunum.
Hvað gerði þá Mao gott fyrir þjóð sína? Í Kína er hans víða minnst sem byltingarleiðtoga sem tókst á endanum með herkænsku sinni að frelsa kínversku þjóðina úr viðjum óstjórnar Þjóðernisflokksins (Guomindang) og undan arðráni erlendra afla og binda þannig enda á tímabilið sem nefnt hefur verið „hundrað ára niðurlæging Kína“. Það var blóðug öld sem einkenndist af viðvarandi þjáningum kínversks almennings. Stofnun Alþýðulýðveldisins Kína árið 1949 markar þannig tíma þar sem kínversku þjóðinni auðnaðist að standa aftur á eigin fótum eftir að hafa verið leiksoppur erlendra nýlenduvelda og innlendra stríðsherra allt frá ópíumstríðunum um og eftir miðja 19. öld. Mao stuðlaði þannig að því að Kínverjar öðluðust aftur ákveðna sjálfsvirðingu.
Í Kína er Mao víða minnst sem byltingarleiðtoga sem tókst á endanum með herkænsku sinni að frelsa kínversku þjóðina úr viðjum óstjórnar Þjóðernisflokksins (Guomindang) og undan arðráni erlendra afla og binda þannig enda á tímabilið sem nefnt hefur verið „hundrað ára niðurlæging Kína“.
Engin leið er að meta hvernig þróunin hefði orðið í Kína ef Mao hefði ekki verið við stjórnvölinn (svonefnd efsaga) en því er ekki að neita að ýmislegt færðist til betri vegar eftir 1949 og Mao átti tvímælalaust sinn hlut í því. Til dæmis voru konum færð aukin réttindi, verulega var dregið úr ólæsi, menntun almennt mjög bætt og velferð almennings tók miklum framförum. Samtímis stóð hann þó fyrir ýmsum pólitískum hreinsunum sem bitnuðu einkum á stéttum á borð við landeigendur, kaupsýslumenn ýmiss konar og jafnt embættismenn og almenning sem höfðu sinnt störfum fyrir Þjóðernisflokkinn eða stutt hann með öðrum leiðum. Það er því ljóst að ekki nutu allir þeirra samfélagslegu og pólitísku aðgerða sem Mao stóð fyrir.
Vesturlandabúar taka Mao varla aftur í sátt en talsvert virðist þurfa að eiga sér stað til að hann glati þeirri virðingarstöðu sem allflestum Kínverjum virðist enn að hann eigi tilkall til.
Nokkrar heimildir:
Benton, Gregor og Lin Chun (ritstj.). Was Mao Really a Monster? The Academic Response to Chang‘s and Halliday‘s Mao: The Unknown Story. Routledge: Abingdon, Oxon og New York, 2010.
Chang, Jung og Jon Halliday. Maó: Sagan sem aldrei var sögð. Þýð. Ólafur Teitur Guðnason. Reykjavík: Forlagið, 2007.
Geir Sigurðsson. „Ítardómur um Mao: The Unknown Story, eftir Jung Chang og Jon Halliday.“ Saga, tímarit sögufélags 45:1 (2007): 181-194.
Guðbjörg Ríkey Thoroddsen Hauksdóttir. „Mao Zedong. Átökin um ímynd formannsins“. Ritgerð til BA prófs í kínverskum fræðum. Reykjavík: Háskóli Íslands 2016. http://hdl.handle.net/1946/25995.
Short, Philip. Mao: A Life. New York: Henry Holt and Company, 1999.
Spence, Jonathan D. Mao Zedong: A Life. New York o.fl.: Viking Penguin, 1999.
Spence, Jonathan D. The Search for Modern China. 3. útg. New York og London: W.W. Norton & Company, 2013.
Geir Sigurðsson. „Hvað gerði Mao Zedong gott fyrir þjóð sína?“ Vísindavefurinn, 6. mars 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77118.
Geir Sigurðsson. (2019, 6. mars). Hvað gerði Mao Zedong gott fyrir þjóð sína? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77118
Geir Sigurðsson. „Hvað gerði Mao Zedong gott fyrir þjóð sína?“ Vísindavefurinn. 6. mar. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77118>.