Mundu reglur um hringtorg styðjast við réttarheimildina venju, þar sem ekkert er fjallað um þau í umferðarlögum fyrir utan að lagning sé bönnuð? Hvernig myndi fara ef tjón yrði í hringtorgi við erlendan ferðamann sem héldi því fram að aðrar reglur um hringtorg giltu?Þann 25. júní 2019 samþykkti Alþingi ný umferðarlög sem munu taka gildi þann 1. janúar 2020. Eitt nýmæli þessara laga eru hátternisreglur sem ökumönnum ber að fylgja í hringtorgum en í eldri umferðarlögum nr. 50/1987 var engum sérstökum reglum um slíkt til að dreifa. Þó gilda um þau almennar reglur um vegamót og á þeim hringtorgum sem hafa tvær akreinar eru yfirborðsmerkingar sem veita innri hring forgang við útakstur. Er þetta andstætt því sem gengur og gerist í nágrannalöndum þar sem ytri akrein hringtorga hefur jafnan forgang en sú regla samræmist hægri reglu 4. mgr. 25. gr. eldri umferðarlaga betur. Í nýjum hinum nýju umferðarlögum nr. 77/2019 er þó nýmæli í 19. gr. sem ber titilinn „Akstur á vegamótum og í beygjum og hringtorgum“ en þar eru hátternisreglur um forgangsrétt í hringtorgum lögfestar. 5. mgr. greinarinnar hljóðar svo :
Ökumaður sem ekur að hringtorgi skal veita þeim sem eru í torginu forgang. Í hringtorgi sem skipt er í tvær akreinar skal ökumaður velja hægri akrein, ytri hring, ætli hann að aka út úr hringtorginu á fyrstu gatnamótum. Ökumaður á ytri hring skal veita þeim sem ekur á innri hring forgang út úr torginu. Óheimilt er að skipta um akrein við hringtorg eða á milli ytri og innri hrings í hringtorgi.Þessi grein lögfestir hátternisreglu sem hefur notið stöðu venju í íslenskum rétti um forgang innri akreinar við útakstur í hringtorgi. Þó er vert að benda á 1. mgr. 15. gr. eldri umferðarlaga sem kveður á um skyldu ökumanna til að velja þá akrein sem lengst er til hægri ef þeir ætla að beygja í þá átt. Ákvæði þetta setur skyldu á herðar ökumanna um að velja ytri akrein ætli þeir út á fyrstu gatnamótum. Af þessu, auk viðmiðunarreglna vátryggingafélaga um skiptingu sakar, má draga þá ályktun að ef ökumaður A færi á innri akrein hringtorgs og myndi síðan fara út á fyrstu gatnamótum og lenda í árekstri við ökumann B sem æki á ytri akrein yrði öll sök lögð á ökumann A. Ný lög munu líklega ekki breyta þessari reglu með hliðsjón af 4. mgr. 19. gr. þeirra. Erlendir ferðamenn á Íslandi þurfa að lúta íslenskum lögum hvaðan sem þeir koma. Íslenska ríkið er fullvalda og innan íslenskrar lögsögu gildir íslenskur réttur jafnt um íslenska sem erlenda ríkisborgara. Erlendur ríkisborgari sem bæri ábyrgð á árekstri í hringtorgi gæti þess vegna ekki haldið því fram að tjónið væri ekki af hans völdum vegna annarra reglna um hringtorg í heimalandi hans. Samkvæmt íslenskum rétti bæri hann ábyrgð á tjóninu. Verður þó að telja hin nýju lög um skýra lögfestingu forgangsréttar innri akreinar til bóta og í betra samræmi við hugmyndina um réttarríkið. Heimildir:
- Ágúst Ingvarsson. (2010). Árekstrarregla 89. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 (meistararitgerð til Mag. jur. prófs í lögfræði). (Sótt 27.9.2019)
- Umferðarlög nr 50/1987 (eldri)
- Umferðarlög nr 77/2019 (nýju)
- Roundabouts Switzerland - picture-newsletter.com (sótt 30.09.19)