Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvað er tvípeð, frípeð og stakt peð í skák? Og hvað eru 6 mismunandi leiðir sem það getur verið jafntefli?
Jafntefli í skák getur átt sér fimm mismunandi orsakir. Spyrjandi biður um sex orsakir, en sú sjötta var fjarlægð úr reglum leiksins árið 1965 þar sem hún getur í raun fallið undir aðrar reglur. Fjarlægða reglan var sú að þegar skákmaður skákaði andstæðingi síendurtekið á sama máta án þess að andstæðingurinn næði að forða sér úr þeim aðstæðum teldist það sem jafntefli. Slíkir endurteknir leikir munu þó á endanum falla undir jafnteflisreglur um hámark 50 leiki eða þriggja leikja regluna.
Reglan um hámark 50 leiki segir að þegar 50 leikir hafa liðið án þess að peð sé fært eða taflmaður drepinn, endi skákin sem jafntefli. Hins vegar fellur reglan úr gildi krefjist annar skákmannanna ekki jafnteflis áður en leikur 51 er leikinn. Sé leikur 51 leikinn án jafntefliskröfu lengist reglan um hámark 50 leiki upp í 75 leiki, og þá þarf ekki að krefjast jafnteflisins heldur er það bindandi.
Leikur Bandaríkjamannsins Bobby Fischer og hins sovéska Mikhail Tal í Leipzig 1960 lauk með jafntefli eftir að Fischer hafði síendurtekið skákað kóngi Tals á sama máta. Þessi jafnteflisregla kallast á ensku „perpetual check“ og var fjarlægð úr reglum leiksins 5 árum eftir þessa viðureign, þar sem svona endurteknir leikir munu á endanum falla undir aðrar jafnteflisreglur.
Þriggja leikja reglan segir að jafntefli verði ef sama staðan kemur upp á taflborðinu í þrjú skipti, en það sama gildir hér og með regluna um hámark 50 leiki - krefjast þarf jafnteflisins, annars er leikið áfram. Komi krafan ekki lengist reglan í fimm leiki og þá er jafnteflið bindandi.
Patt, eða pattmát, er það kallað þegar skákmaður sem á leik getur ekki fært taflmann og kónginum hans er ekki „skákað“ af taflmönnum andstæðingsins.
Fjórða mögulega orsök jafnteflis er ómöguleiki á mátun, sem verður oftast þegar fáir taflmenn eru eftir á borðinu. Þær samsetningar á taflborðinu sem gera mátun ómögulega eru:
kóngur gegn kóngi,
kóngur og biskup/riddari gegn kóngi og
kóngur og biskup gegn kóngi og biskupi þegar biskuparnir eru á eins lituðum reitum.
Að lokum er hægt að semja um jafntefli. Hugtakið stórmeistarajafntefli er stundum notað þegar samið er um jafntefli eftir tiltölulega fáa og jafnvel tilþrifalitla leiki. Til gamans má geta að íslenskir stórmeistarar eru 15 talsins - raunar 16 ef íslenski ríkisborgarinn Bobby Fischer er talinn með! Fischer fékk þó ríkisborgararéttinn seint á ævi sinni og lék aldrei skák opinberlega sem íslenskur ríkisborgari.
Jafnteflisreglurnar hafa margar ítarlegar undirgreinar sem taka til frávika eða kringumstæðna þar sem reglurnar geta tekið breytingum. Þær má sjá í grein 9 í leikreglubók FIDE.
Spyrjandi spyr einnig um hvað stakt peð, tvípeð og frípeð sé. Stakt peð kallast það þegar peð hefur ekki lengur peð af sama lit á aðliggjandi línum, til dæmis ef hvítur ætti peð á D reit en engin peð á C eða E reitum. Frípeð er peð sem er óáreitt af peðum andstæðingsins og á frjálsa leið upp í borð hans og tvípeð er þegar tvö peð af sama lit eru á sömu línu.
Heimildir: