Afhverju skrifa Íslendingar Pólland með tveimur L-um? Dregur ekki landið nafnið af ánni Po? Það er ekkert L í Po hvaðan kemur þetta auka L?Rótin í fyrri hluta landsheitisins er Pól-. Hún er rakin til frumslavneskrar rótar, *pol’e með merkinguna „opið svæði, slétta, akur“. Seinni liðurinn er einfaldlega -land. Nafn landsins er sem sagt myndað nákvæmlega eins og landaheiti á borð við Frakk + land, Ind + land, Ír + land, Ís + land, Rúss + land og svo framvegis. Á 19. öldinni varð sífellt algengara að íslensk tímarit og bækur greindu frá landsháttum, sögu og fréttum úr öðrum löndum, almenningi til fróðleiks. Í Fjölni, IV. hefti, var heiti Póllands reyndar „þýtt“ alveg yfir á íslensku, í anda málhreinsunar- og nýyrðaáhuga Fjölnismanna: Sléttumannaland, segir þar. Eins og fyrr segir merkir rótin Pól- í nafni landsins „slétta, opið svæði, akur“ þannig að Sléttumannaland er nokkuð bein þýðing.

Rótin í fyrri hluta landsheitisins er Pól-. Hún er rakin til frumslavneskrar rótar, *pol’e með merkinguna „opið svæði, slétta, akur“.
Meðal hinna pólsku hershöfðingja, sem nú buðu [Kossuth] þjónustu sína, var og hin fræga hetja Hinrik Dembinsky, sem lengi hefur haldið að Pólland ei yrði frelsað nema fyrir meðalgöngu Ungverjalands. Hann er fæddur 1791 af gamalli pólskri ætt, og faðir hans ljet hann á banasænginni sverja að halda fast við frelsi og sjálfræði Póllands, og megi menn trúa myndum af honum, þá lítur hann víst svo út sem hann hafi svarið, að brosa aldrei fyrr enn Póllands sje hefnt — það er eins og á andlit hans sje skrifað með grimmu raunaletri: Jeszcze polska nie zginęła!Pólska setningin í lok þessarar klausu merkir eitthvað í áttina við „Pólland hefur ekki enn gefist upp!“ Pólskt heiti landsins er Polska og fullt heiti raunar Rzeczpospolita Polska sem notað er í lögum og öðrum formlegum skjölum. Fornt heiti Póllands var Lechia, dregið af nafni Lechs sem munnmæli herma að hafi fyrstur stofnað ríkið. Til er þekkt goðsögn meðal slavneskra þjóða sem greinir frá þremur bræðrum, Czech, Rus og Lech sem fóru á veiðar en eltu hver sína bráðina, fóru í ólíkar áttir og settust að og stofnuðu hver sitt ríki: Czech í vestri, Rus í austri og Lech í norðri. Enn í dag nefna Pólverjar landið sitt stundum Lechia, til að mynda í bókmenntum. Þá kemur fyrir að vísað er til fornaldarnafnsins Sarmatia að minnsta kosti í einhverju pólsku samhengi en það var landsvæði sem sagnir herma að hafi verið norðan við Skýþíu. Hið forna nafn á Póllandi, Lechia, skilaði sér reyndar óbeint í Haralds sögu Sigurðarsonar í Heimskringlu. Þar kemur fyrir heitið Læsir, í þágufalli fleirtölu Læsum, um Pólverja, við ána Vislu. Læsirnir hafa greinilega fengið heiti sitt af landsheitinu Lechia, í einhverri mynd. Í vísu Þjóðólfs í sögunni segir: „Austur-Vindum ók / í öngvan krók / vara (þ.e.: var ekki) Læsum léttur / liðsmanna réttur“. Átt er við það að réttlæti hermanna Haralds hafi reynst Læsunum þungbært. Af hinu gamla pólska landsheiti Lechia eru dregin nokkur nöfn um Pólland sem tíðkast enn í sumum tungumálum, til að mynda Lenkija í litáísku og Lengyelország í ungversku. Algengast er samt að aðrar þjóðir noti Pól-rótina í heiti landsins í málum sínum: la Pologne á frönsku, Poland á ensku, Polen á þýsku, hollensku, dönsku, norsku og sænsku, Puola á finnsku, Polonia á spænsku og ítölsku, Polsha á búlgörsku og rússnesku, Gwlad Pwyl á velsku, An Pholainn á írsku og svo framvegis. Enska heitið Poland er þekkt í heimildum að minnsta kosti frá miðri 16. öld. Það er myndað á sama hátt og hið íslenska Pólland, það er úr orðliðunum pol(e) og land. Í enskri stafsetningu er öðru l-inu raunar sleppt og slíkar einfaldanir þekkjast í fleiri sambærilegum nöfnum á ensku, samanber Finland þar sem búið er að sníða burt annað n-ið. Vitaskuld eru þar þó tvö n í rót fyrri liðar og það sést meðal annars á því að íbúarnir nefnast á ensku Finns (en ekki "Fins") og tungan Finnish (en ekki "Finish"). Upprunasjónarmið er meginatriði í íslenskri stafsetningu og því kemur hér ekki annað til greina en að ræturnar Pól- og Finn- komi skýrt fram í rithættinum: Pólland, Finnland. Ritun nafnsins Pólland á íslensku með l+l er sem sé hin eina rökrétta í íslensku: Fyrra l-ið er fengið úr upprunalegu rótinni Pól- og hið síðara úr liðnum -land. Myndir:
- Pixabay. (Sótt 7.2.2019).
- Wikipedia. Lech, Czech, Rus and the White Eagle, as painted by Walery Eljasz-Radzikowski (1841–1905). (Sótt 5.2.2019).