Hvers vegna íslenska orðið yfir fólk frá Noregi ritað með ð-i, Norðmaður, en ekki Normaður. Hvaðan kemur ð-ið?Skýringin á Noregur í Íslenskri orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon, sem aðgengileg er nú á málið.is hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, er þessi:
Noregur, †Nóregr k. sérnafn á vestara landinu á Skandinavíuskaga; < *Norðvegr, sbr. fe. norðweg, mlat. Northwegia, mhþ. Norwege, eiginl. ‘vegur í norðurátt, norðurleið’;Þarna gerir Ásgeir ráð fyrir upphaflegri mynd með -ð en * merkir að orðmyndin komi ekki fyrir en er sennileg ágiskun að mati höfundar. Í Ordbog over det gamle norske Sprog eftir Johan Fritzner (II:831–832) er norðmaðr sagt merkja í fyrsta lagi „person som har sit Hjem eller sin Herkomst fra norðrlönd“ (maður sem býr í eða á rætur að rekja til norðurlanda), í öðru lagi „modsat suðrmaðr“ (andheiti við suðurmaður). Undir norðland er skýringin „Land som ligger mod Nord, nordenfor“ (land sem er í norðri, fyrir norðan). Í orðsifjabók Jan de Vries (1962:411–412) er Noregr einnig endurgerður (*Norðvegr) og skýringin er „eiginlega vegurinn sem liggur til norðurs meðfram ströndinni“ (þýtt af höfundi þessa svars) og styðst þar við að meginlandsmyndir bendi til orðanna norðr og vegr (sjá til dæmis skýringu Ásgeirs). Hann efast þó sjálfur um þessa skýringu af því að á danskri rúnaristu sé ekkert tannhljóð, það er -ð- en bendir á skýringu A. Noreens að tengja við orðið nór ‘þröngur vegur, landtunga’. Miðlatneska myndin og sú fornenska væru þá alþýðuskýringar. Skýring Noreens er að mínu mati nokkuð sennileg. Heimildir:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- de Vries, Jan. 1962. Altisländisches etymologisches Wörterbuch. E.J.Brill, Leiden.
- Fritzner, Johan. 1891. Ordbog over det gamle norske Sprog. Annað bindi, Hl–P. Bls. 831–832.
- Flickr. Trollstigen - Rauma, Norway - Landscape photography. Eigandi myndarinnar er Giuseppe Milo. Birt undir CC BY 2.0-leyfi Creative Commons. (Sótt 14.2.2019).