Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Inga Þórsdóttir hefur kennt næringarfræði við Háskóla Íslands frá árinu 1989. Hún varð prófessor við námsbraut í matvælafræði í efnafræðiskor Raunvísindadeildar 1997, sem síðar varð Matvæla- og næringarfræðideild við Heilbrigðisvísindasvið skólans. Inga er forseti Heilbrigðisvísindasviðs síðan 2012. Rannsóknir Ingu eru á sviði næringarfræði mannsins, í klínískri næringarfræði og lýðheilsunæringarfræði. Hún hefur lagt áherslu á næringu viðkvæmra hópa í samfélaginu og rannsakað næringarefni. Inga hefur verið í rannsóknahópum sem beita mismunandi aðferðum, allt frá tilraunum að slembiröðuðum samanburðarrannsóknum, auk fram- og aftursærra faraldsfræðilegra aðferða.
Fyrstu rannsóknir Ingu beindust að blóðsykri meðal fólks með venjulegt og skert sykurþol eða sykursýki. Niðurstöður rannsóknanna sýndu að gerð fæðusterkju og fæðutrefja, skipta allmiklu fyrir blóðsykurstyrk, og fyrir gæði matvæla sem innihalda fæðukolvetni, meltanleg og ómeltanleg.
Rannsóknir Ingu eru á sviði næringarfræði mannsins, í klínískri næringarfræði og lýðheilsunæringarfræði.
Síðari rannsóknir Ingu spanna vítt svið og hafa beinst að næringu fólks snemma á lífsleiðinni, frá fóstur- og ungbarnaskeiði, til efri ára. Þannig sáust tengsl milli fæðingarþyngdar og hjarta- og æðasjúkdóma og áhættuþátta þeirra síðar á ævinni í samstarfi Hjartaverndar og rannsóknahóps Ingu. Enn fremur sýndu rannsóknir Ingu og samstarfsfólks tengsl milli mikillar neyslu venjulegrar kúamjólkur á fyrsta ári og annars vegar lélegs járnbúskapar og hins vegar á ofþyngd sex ára barna. Hvoru tveggja er staðfest af erlendum rannsóknum. Rannsóknirnar stuðluðu að breyttum ráðleggingum til foreldra um næringu ungbarna. Rannsóknirnar á ungbörnum hafa meðal annars einnig verið notaðar af samstarfshópnum til að meta í fyrsta sinn hér á landi D-vítamín inntöku og -búskap meðal ungra barna.
Inga hefur unnið með hópum evrópskra vísindamanna og Íslendingum að rannsóknum á næringu og matarhegðun skólabarna. Niðurstöðurnar sýndu meðal annars að fræðsla og framboð hollra matvæla í skóla hafa mikið að segja sérstaklega í þeim barnahópum sem hafa verstu matarvenjurnar fyrir.
Inga stýrði evrópskri fjölþjóðarannsókn á heilsufarslegum áhrifum af fisk- og lýsisneyslu meðal ungra fullorðinna einstaklinga sem töldust of þungir. Þar sáust jákvæð áhrif af neyslu á lítið feitum fiski, þorski, auk þess sem áður var þekkt um hollustuáhrif fituríkari fisktegunda og lýsis.
Rannsóknahópar Ingu hafa einnig fjallað um næringarástand sjúklingahópa á sjúkrahúsum og um næringu aldraðra sem búa í heimahúsum. Niðurstöðurnar hafa meðal annars sýnt heilsuverndandi áhrif af hreyfingu og undirstrikað mikilvægi nægilegrar orku- og prótínneyslu, auk annarra næringarefna meðal aldraðra.
Inga tekur virkan þátt í norrænu fræðasamstarfi; bæði stórum rannsóknum, nýlegast á hollu norrænu fæði og lífvísum auk fleiri þátta, og viðamiklu samstarfi um ráðleggingar um mat og næringu.
Rannsóknir Ingu hafa hlotið styrki frá norrænum, evrópskum og bandarískum samkeppnissjóðum. Hún leiðbeindi mörgum meistara og doktorsnemendum allt til ársins 2014 og telur mikilvægast að færa næstu kynslóð vísindin. Inga hlaut verðlaun Ásu Guðmundsdóttur Wright árið 2010 fyrir uppbyggingu og árangur næringarfræðilegra rannsókna á Íslandi og riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir vísindastörf árið 2014.
Mynd:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Inga Þórsdóttir rannsakað?“ Vísindavefurinn, 11. janúar 2019, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76955.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2019, 11. janúar). Hvað hefur vísindamaðurinn Inga Þórsdóttir rannsakað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76955
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Inga Þórsdóttir rannsakað?“ Vísindavefurinn. 11. jan. 2019. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76955>.