Af og til fæ ég sjónvarpsköku að maula og finnst mér hún ósköp góð. En alltaf verður mér hugsað til nafnsins og hvaðan það kemur. Veit einhver hvaðan nafnið sjónvarpskaka kemur?Íslenskt sjónvarp hóf útsendingar 30. september 1966 og sendi út tvisvar í viku, á miðvikudögum og föstudögum. Í Alþýðublaðinu 25. október 1966 birtist eftirfarandi klausa í þættinum Kökur og brauð:
Og af því að nú sitja allir og horfa á sjónvarpið að minnsta kosti tvisvar í viku, er ekki úr vegi að koma hér með uppskrift að sjónvarpsköku, sem er gott að narta í, meðan horft er á sjónvarpið.[1]Þetta er elsta dæmið sem ég hef fundið um orðið sjónvarpskaka en nafn höfundar dálksins fann ég ekki. Næstelstu dæmi á Timarit.is eru frá 1994 í auglýsingum og er oftast verið að auglýsa Samsölusjónvarpsköku. Á vefmiðlum má nú finna fjöldann allan af uppskriftum af kökum sem á vefsíðum eru kallaðar sjónvarpskökur. Tilvísun:
- ^ Alþýðublaðið, 25.10.1966 - Timarit.is. (Sótt 4.03.2019).
- File:Family watching television 1958.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 19.02.2019).