Hvernig virka kirkjuorgel?Í íslensku er orðið orgel bæði notað um hljóðfærið sem hefur pípur og gömlu fótstignu hljóðfærin. Erlendis er orðið orgel ekki notað um fótstignu hljóðfærin heldur eru þau nefnd harmóníum enda er virkni þeirra allt önnur. Í þessu svari er fyrst og fremst fjallað um pípuorgel en í lokin er stuttlega sagt frá harmóníum. Þýska orðið orgel er dregið af gríska orðinu organon sem þýðir verkfæri. Orgel er elsta hljómborðshljóðfærið og upphaf þess má rekja til ársins 246 f.Kr. Ktesibios frá Alexandríu í Egyptalandi á heiðurinn af smíði fyrsta orgelsins en hann var uppfinningamaður og lagði stund á eðlisfræði. Hann nefndi hljóðfærið sitt „hydraulos“ eða vatns-aulos. Aulos var mjög algengt hljóðfæri á þessum tíma og má einna helst líkja því við óbó. Ktesibios notaði röð af slíkum pípum í hljóðfærið sitt, þær voru allar mismunandi langar og gáfu þar af leiðandi frá sér mismunandi háa tóna. Vatn var notað til þess að ná upp loftþrýstingi í hljóðfærið og þaðan kemur nafngiftin vatnsorgel. Þó fátt sé vitað um fyrstu 150 árin í sögu orgelsins er þó óhætt að segja að þetta furðuverk sem Ktesibios fann upp hafi þróast í vinsælt hljóðfæri og á 1. öld f. Kr. voru meira að segja haldnar keppnir í Grikklandi þar sem menn reyndu með sér í orgelleik. Frá því að Ktesibios smíðaði sitt fyrsta orgel með einni pípuröð hefur að sjálfsögðu orðið mikil þróun. Um 950 var smíðað orgel í Péturskirkjuna í Winchester á Englandi sem hafði 10 pípuraðir með 40 tónum, það er 400 pípur. Til þess að leika á orgelið þurfti tvo organista og 70 menn til að þjóna hinum 26 belgjum sem tengdir voru við það. Fram að þessum tíma hafði orgelið nær eingöngu verið veraldlegt hljóðfæri og varð ekki viðurkennt sem kirkjulegt hljóðfæri fyrr en á 14. öld. Tímabilið frá 13. til 15. öld var mikið þróunarskeið í sögu orgelsins og komu þá fram ýmsar nýjungar. Á 16. öld náði orgelið ákveðnum hápunkti og er í dag í öllum grundvallaratriðum smíðað á sama máta og þá. Pípur, belgur og hljómborð Þýski tónlistarfræðingurinn Curt Sachs (1881-1959) skilgreinir orgel á eftirfarandi hátt „orgelið er lofthljóðfæri (blásturshljóðfæri) með röð eða raðir af eintóna flautum sem hver fyrir sig er stillt í ákveðna tónhæð. Loftið fá flauturnar (pípurnar) úr belg og er loftstreyminu stýrt inn í þær frá svokölluðu hljómborði.“ Þessi skilgreining telur upp þá þrjá meginþætti sem þarf til þess að hægt sé að nefna hljóðfærið orgel, það er pípur, belg og hljómborð. Þó að hljóðfæri beri nafnið orgel segir það manni í raun ekki mjög mikið um hvað er verið að ræða. Við gerum að sjálfsögðu ráð fyrir því að það hafi pípur og hljómborð. En hvað skyldu þessar pípur vera margar og hljómborðin, eru þau fleiri en eitt? Hvernig lítur það út? Er það stórt eða lítið? Er það nútímalegt eða gamaldags? Það sem segir okkur mest um hljóðfærið og hlýtur þar af leiðandi að vera fyrsta spurning sem vaknar er hversu margar raddir hljóðfærið hefur. Ein rödd í orgeli er röð af pípum sem hafa sama byggingarlag og gefa frá sér tóna með sama blæ. Hafi hljómborðið tónsvið frá stóru C upp að þrístrikuðu g´´´ er hér um 56 pípur að ræða. Raddafjöldi hljóðfærisins ræður síðan að nokkru leyti hvað hljómborðin verða mörg.

Mesta pípuorgel Evrópu er í St. Stephan-dómkirkjunni í Passau í Þýskalandi. Orgelið var smíðað á árunum 1924-28 og samanstendur af 17.774 pípum.

Orgelið í Boardwalk Hall í Atlantaborg í Bandaríkjunum er stærsta pípuorgel í heimi, með yfir 33 þúsund pípur. Ekki eru þó allar pípurnar nothæfar. Hér má heyra og sjá þjóðsöng Bandaríkjanna leikinn á þetta orgel.

Harmóníum sem á íslensku er líka kallað orgel eru miklu minna hljóðfæri en pípuorgel. Þau henta bæði sem kirkjuhljóðfæri og til notkunar í heimahúsum. Hér má sjá harmóníum í All Saints-kirkjunni í Norfork í Bretlandi.
- Dion654a ancient organ.jpg. (Sótt 8. 3. 2019).
- The organ of St. Stefan in Passau.jpg. (Sótt 8. 3. 2019).
- Atlantic City Convention Hall Organ | ALK3R. (Sótt 8. 3. 2019).
- All Saints Church - harmonium (C) Evelyn Simak :: Geograph Britain and Ireland. (Sótt 8. 3. 2019).