Af hverju er talað um að taka slátur. Af hverju býr maður það ekki til?Ekkert dæmi fann ég í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans um að „taka slátur“. Orðasambandið er ekki í Íslenskri orðabók (2002) og ekki í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals (1920–1924). Það kemur ekki fyrir í ritinu Íslenskir þjóðhættir eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili eða annars staðar þar sem ég hef leitað. Mér hefur helst hugkvæmst að ferlið sé svona: Kona (eða karl) fer til að kaupa slátur, það er innmat, haus og fætur af kind. Seljandinn spyr: „Hvað ætlarðu að taka mörg slátur?“ og á þá við innmatinn og allt sem honum fylgir. Merkingin færist síðan yfir á verknaðinn að vinna blóðmör og lifrarpylsu úr hluta af slátrinu. „Ég ætla að taka fimm slátur“ merkir almennt nú: Ég ætla að gera/búa til blóðmör og lifrarpylsu úr fimm slátrum.“ Ef einhver hefur aðra eða betri skýringu má sá hinn sami gjarnan senda hana á Vísindavefinn. Mynd:
- Wikimedia Commons. Slátur. Höfundur myndar er Navaro. (Sótt 18.12.2018). Birt undir CC BY-SA 3.0-leyfi.