Hvað er að vera gonaralegur? Hungraður? Horfinn?, hvaðan kemur lýsingarorðið...Lýsingarorðið gonaralegur virðist lítið notað. Ekkert dæmi fannst í Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans og eitt á Tímarit.is úr ritinu Muninn, skólablaði Menntaskólans á Akureyri, frá 1991. Þar stendur undir „Spurning dagsins“:
Að þessu sinni létum við reyna á gáfur kennara. Þessu áttu þeir að svara: Við rákumst á gonaralegan hrauma. Fyrst þú ert að stolsa myndir þú þá vilja vomast aðeins og segja okkur að hverju þú kemst? (Í lauslegri „þýðingu“: Við rákumst á ræfilslegan vesaling. Fyrst þú ert að drolla við vinnu þína, myndir þú þá vilja gá til veðurs og segja okkur að hverju þú kemst?)“Þarna er gefin merkingin ‘ræfilslegur’. Hún kemur heim og saman við flettu í Íslenskri orðsifjabók (1989:269; nú einnig aðgengileg á málið.is). Þar stendur:
gonara- (nísl.) forliður í orðum eins og gonaradyr ‘víðar dyr’ og gonaralegur (einnig ⊙gonnaralegur) l. ‘illa búinn, glænapalegur, magur og gugginn, kuldalegur, flónslegur, skrýtinn’. Uppruni óljós, en e.t.v. sk. nno. gone, gu(u)ne kv. ‘vindhviða, æsing’ eða í ætt við gonsa (2) og gonta (1) (s.þ.). Sjá gjóna og gonsa (1).Orðið er einnig fletta í Íslenskri orðabók (2002:472) og merkingin sögð ‘1. illa klæddur, grár, gugginn og kaldur 2. kjánalegur’. Það finnst ekki í málið.is. Heimildir:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Íslensk orðabók. 2002. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Ritstjóri Mörður Árnason. Edda: Reykjavík.
- Timarit.is
- Vikan, 47. árgangur 1985, 4. Tölublað - Timarit.is. (Sótt 19.12.2018).