Hvaðan er orðið gormæltur/gormæli og hver er skýring á því? Á vinnustað mínum skapaðist umræða um hvaðan orðið gormæltur er komið? Eitt okkar hafði til dæmis lifað í þeim misskilningi að það væri ritað gorm-mæltur og hugsaði sér að skýringin væri að hljóðið úr barka þess sem væri gor[m]mæltur togaðist og rúllaði eitthvað til. Síðan áttar viðkomandi sig á orðið er ritað gor-mæltur. Er vitað hvaðan það er upprunnið? Við erum búin að leita í nokkrum bókum og finnum ekkert sem skýrir það. Með fyrirfram þökk.Fyrri liður í samsetningunum gormæltur og gormæli er nafnorðið gor sem hefur fleiri en eina merkingu. Algengust er merkingin ‘hálfmelt fæða í innyflum grasbíta’ en aðrar merkingar eru ‘djúpur bassi’ og ‘kverkmælt rödd’. Í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar (1989:269) er uppruna orðsins og skyldleika við önnur germönsk mál lýst og getur Ásgeir sér þess til að upphafleg merking sé ‘eitthvað draflkennt, gerjandi’. Orðsifjabókin er öllum opin á Málið.is. Heimild:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Beer Fermentation Free Stock Photo - Public Domain Pictures. (Sótt 19.02.2019).