Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Anna-Lind Pétursdóttir er prófessor í sálfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að úrræðum fyrir börn með sérþarfir ásamt þjálfun skólastarfsfólks og foreldra í beitingu þeirra. Rannsóknirnar hafa sérstaklega falið í sér þróun og mat á áhrifum aðferða til að stuðla að framförum nemenda í lestri og bættum samskiptum, hegðun og líðan barna. Samhliða rannsóknum hefur Anna-Lind lagt áherslu á að skrifa fræðigreinar á íslensku til að veita háskólanemum og starfsfólki á vettvangi aðgengilegt lesefni um árangursrík vinnubrögð til að mæta fjölbreytilegum þörfum barna.
Undanfarin ár hefur Anna-Lind leiðbeint skólastarfsfólki og háskólanemum í rannsóknum á vettvangi, meðal annars til að meta umfang hegðunarvanda nemenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum og mæla áhrif stuðningsáætlana byggðum á virknimati. Þær rannsóknir hafa sýnt að hægt er að draga úr langvarandi hegðunarvanda með jákvæðum úrræðum. Anna-Lind hefur einnig unnið að rannsóknum á áhrifum lestrarkennslu með samvinnunámsaðferðum, beinni kennslu og fimiþjálfun á lestrarfærni mismunandi hópa, meðal annars í rannsókn í samstarfi við dr. Gabrielu Sigurðardóttur. Í annarri rannsókn hefur Anna-Lind unnið með dr. Margréti Sigmarsdóttur, verkefnastjóra hjá Barnaverndarstofu og dr. Marion Forgatch við Oregonháskóla, að mati á áhrifum foreldrafærninámskeiða á samskipti foreldra og barna ásamt þróun nýrra aðferða við mat á þeim áhrifum.
Rannsóknir Önnu-Lindar hafa einkum beinst að úrræðum fyrir börn með sérþarfir ásamt þjálfun skólastarfsfólks og foreldra í beitingu þeirra. Sér í lagi hafa rannsóknirnar falið í sér þróun og mat á áhrifum aðferða til að stuðla að framförum nemenda í lestri og bættum samskiptum, hegðun og líðan barna.
Til viðbótar við íhlutunarrannsóknir hefur Anna-Lind unnið að lýsandi rannsóknum, meðal annars til að kanna viðhorf kennara og stöðu mála varðandi hegðun, samskipti og sérþarfir nemenda í tengslum við hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar. Hún var einn rannsakenda í viðamikilli rannsókn á starfsháttum grunnskóla, Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar og hefur haft umsjón með ýmiss konar könnunum, svo sem til að meta umfang og áhrif hegðunarerfiðleika nemenda og framkvæmd kennslu og stuðning við nemendur með sérþarfir. Anna-Lind hefur skipulagt eigindlegar viðtalsrannsóknir samhliða megindlegum rannsóknum til að fá fyllri mynd af viðfangsefninu.
Anna-Lind hefur sinnt margs konar störfum á vettvangi samhliða starfi sínu hjá Háskóla Íslands. Hún hefur unnið sem yfirsálfræðingur hjá leikskóladeild Menntasviðs Kópavogsbæjar, starfað í stjórnum fagsamtaka og fagráði náms- og gæðamats hjá Menntamálastofnun auk þess sem hún hefur haldið fjölmörg námskeið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands og við grunn- og leikskóla landsins, einkum um leiðir til að fyrirbyggja erfiða hegðun og efla félagsfærni barna, hópastjórnun og einstaklingsmiðuð úrræði til að draga úr langvarandi hegðunarerfiðleikum.
Anna-Lind er fædd árið 1971 og lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut frá Menntaskólanum á Akureyri 1991. Hún lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1996 og cand.psych. meistaraprófi í sálfræði 2001. BA-rannsóknin hennar fjallaði um áhrif atferlisþjálfunar á nám barns með einhverfu og meistararannsóknin beindist að þjálfun leikskólastarfsfólks til að styðja námsframvindu barna með seinkaðan þroska. Að meistaranámi loknu starfaði Anna-Lind sem skólasálfræðingur hjá Leikskólum Reykjavíkur auk þess að sinna stundakennslu við Háskóla Íslands. Frá 2003 til 2006 stundaði Anna-Lind doktorsnám í menntunarsálfræði, með áherslu á sérkennslufræði, við Minnesotaháskóla í Bandaríkjunum. Þar beindust rannsóknir hennar meðal annars að útfærslu samvinnunámsaðferða til að auka félagsleg samskipti og/eða auka námshraða nemenda með sérþarfir. Að loknu doktorsnámi stýrði Anna-Lind átaksverkefni hjá Menntasviði Reykjavíkurborgar um bætt samskipti og hegðun barna í grunn- og leikskólum. Hún hóf störf sem lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands árið 2008 og hefur þar lagt áherslu á að fjalla um gagnreyndar og hagnýtar aðferðir sem nýst geta fagfólki í uppeldis-, menntunar- og kennslufræðum á vettvangi.
Mynd:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Anna-Lind Pétursdóttir rannsakað?“ Vísindavefurinn, 12. nóvember 2018, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76560.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 12. nóvember). Hvað hefur vísindamaðurinn Anna-Lind Pétursdóttir rannsakað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76560
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Anna-Lind Pétursdóttir rannsakað?“ Vísindavefurinn. 12. nóv. 2018. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76560>.