Hvað er skötufótur? Samanber: þegir barn er það nagar skötufótinn.Í riti Lúðvíks Kristjánssonar, Íslenzkir sjávarhættir, (IV:352) segir: „Við kviðuggana á skötuhæng er allstór sepi – skötufótur. „Þegir barnið meðan það etur skötufótinn,“ er sagt, þegar ætla má, að einhver sé ánægður í bili.“ Aðeins önnur mynd er í riti Guðmundar Jónssonar Safn af íslenzkum orðskviðum ... frá 1830: „Þegir barnið, á meðan það borðar skötufótinn.“ Elsta heimild um orðið skötufótur í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr ýkjukvæðinu Malpokakvæði í riti Ólafs Davíkssonar Þulur og þjóðkvæði í fjórða hluta ritsins Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur (bls. 323). Þar er talið upp hvað óheppinn maður missti úr mal sínum. Eitt af því var skorpinn skötufótur. Börnum hefur líklega verið gefinn skötufótur til þess að naga þegar lítið var til matar sem nægði þeim um hríð. Heimildir:
- Guðmundur Jónsson. 1830. Safn af íslenzkum orðskviðum ... samanlesið og í stafrofsröð sett af Guðmundi Jónssyni. Kaupmannahöfn.
- Lúðvík Kristjánsson. 1985. Íslenzkir sjávarhættir IV. Bókaútgáfa Menningarsjóðs: Reykjavík.
- Ólafur Davíðsson. 1898–1903. Þulur og þjóðkvæði. Í: Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur IV. Safnað hafa J. Árnason og Ó. Davíðsson. Hið íslenzka bókmentafélag: Reykjavík.
- Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans.