Við höfum séð að krummi hefur stundum verið að stríða fólki og dýrum t.d. mömmu, hestum, heimalningum og hundum. Af hverju gerir hann þetta?Leikir dýra, sérstaklega ungviðis, eru gjarnan æfing fyrir það sem tekur við í lífsbaráttunni á fullorðinsárunum. Leikirnir hafa því ákveðinn tilgang. Það er þó erfitt að sjá hvaða tilgang hrekkir og stríðni hrafna hefur, annan en að skemmta þeim. Margar skemmtilegar sögur eru til af hröfnum og stríðni þeirra og reyndar mörgu öðru athygliverðu í atferli þeirra. Algengt er að hrafnar láti hunda elta sig, þá setjast þeir á jörðina og fljúga svo upp og setjast annars staðar þegar hundurinn nálgast. Þannig gengur þetta í einhvern tíma þangað til hundurinn gefst upp, hrafninn sest fyrir ofan hann á tré eða staur og krunkar á hann, eins konar endapunktur hjá stríðnispúkanum! Hrafnar hafa líka gaman af því að stríða öðrum fuglum, toga í stélfjaðrir þeirra eða pikka í þá. Sést hefur til hrafna stríða haferni eins og myndskeiðið sem tekið var upp við Búðardal og birt á Vísi.is sýnir vel. Einnig má benda á myndskeiðið Ravens Teasing á Youtube-efnisveitunni þar sem krummar sjást hrekkja máf.

Hröfnungar (hrafnar, krákur og fleiri tegundir) eru þekktir fyrir að vera hrekkjóttir og stríða stundum dýrum sem eru miklu stærri en þeir eru sjálfir.
- Can Kabadayi og Mathias Osvath. (2017). Ravens parallel great apes in flexible planning for tool-use and bartering. Science, 357(6347): 202-204 DOI: 10.1126/science.aam8138
- Nathan J. Emery og Nicola S. Clayton. (2004). The Mentality of Crows: Convergent Evolution of Intelligence in Corvids and Apes, Science 306(5703): 1903-1907 DOI: 10.1126/science.1098410
- Nip & Run - Squee!. (Sótt 3. 12. 2018).