Þegar sveppir eru tíndir, skiptir máli hvort þeir eru skornir eða slitnir upp? Og ef svo er, hvers vegna?Nei það skiptir ekki máli hvort sveppir eru skornir eða slitnir upp því það eru sveppaldin sem maður tínir en ekki líkami sveppsins. Líkami sveppsins er gerður úr fínlegum sveppþráðum og er til dæmis ofan í jarðvegi, vafinn utan um rótarenda hýsiltrjáa svepprótarsveppa eða inni í rotnandi trjábol. Svo lengi sem líkami sveppsins er ekki skemmdur þá mun hann framleiða fleiri aldin þegar aðstæður henta til fjölgunar. Aldin sveppa eru ætluð til þess að skýla því þegar gró sveppsins eru mynduð og að auðvelda dreifingu þeirra. Þegar gróin eru fokin út í veður og vind er hlutverki aldinanna lokið.

Kúalubbi (Leccinum scabrum) er einn allra algengasti hattsveppur á Íslandi og myndar svepprót með birki. Hann er ágætur matsveppur ef hann er ungur og óskemmdur.
- Leccinum scabrum - horizontal (aka).jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: André Karwath. Birt undir Creative Commons Attribution-Share Alike 2.5 Generic leyfi. (Sótt 16. 8. 2018).