Hversu ungir mega krakkar vera til að gerast grænmetisætur eða anti-kjötætur? Það hljóta líka að vera einhver skynsemismörk á því að vera vegan eða í einhverjum af þessum flokkum meðan krakkar eru að taka út mestan vöxt og þroska.Eitt af því sem gerir manninn einstakan er hæfileiki hans til að nýta sér fjölbreyttar leiðir til fæðuöflunar og að geta lifað á fæði bæði úr jurta- og dýraríkinu. Þekking í næringarfræði hefur aukist mikið undanfarna áratugi, þar með talið þekking á næringargildi ýmissa fæðutegunda. Í opinberum ráðleggingum um fæðuval eru gefnar leiðbeiningar um það hversu mikils magns sé æskilegt að neyta af fæðu úr tilteknum fæðuflokkum til þess að mæta þörfinni fyrir hin ýmsu vítamín og steinefni. Hver fæðuflokkur er einstakur og veita þeir mismunandi næringarefni í mismiklu magni. Ráðleggingar um fæðuval byggja meðal annars á því hvaða fæðuflokkar hafa í gegnum tíðina verið mikilvægar uppsprettur mismunandi næringarefna á Íslandi, en einnig á rannsóknum um tengsl fæðuvals og heilsu. Ákveði einstaklingur af einhverjum ástæðum að sneiða hjá fæðu úr einstaka fæðuflokkum er mikilvægt að hafa þekkingu á því hvaða næringarefni viðkomandi flokkur veitir, hvort og þá hvernig nálgast megi sömu næringarefni úr annarri fæðu eða hvort þörf sé á fæðubótarefnum. Grænmetisfæði eða grænmetishyggju má skipta upp í nokkra flokka:
- Mjólkur- og eggja-grænmetishyggja (ovo-lacto-vegeterian): Borðar engar kjötvörur en neytir eggja og mjólkurvara og í sumum tilfellum fisks.
- Mjólkur-grænmetishyggja (lacto-vegeterian): Borðar mjólkurvörur en engar kjötvörur, egg, fisk eða önnur matvæli unnin úr dýraafurðum.
- Eggja-grænmetishyggja (ovo-vegeterian): Borðar egg en engar kjötvörur, fisk, mjólkurvörur eða önnur matvæli unnin úr dýraafurðum.
- Veganismi (veganism):Borðar engar dýraafurðir (kjöt, fisk, mjólk, egg eða önnur matvæli unnin úr dýraafurðum).
- Ávaxtahyggja (fruitarian): Fæðið samanstendur að langstærstum hluta af ferskum ávöxtum og grænmeti ásamt hóflegum skammti af fituríkum matvælum á borð við hnetur, fræ og avókadó.
- Pixabay. (Sótt 18.9.2018). Growing produce to grow in community > Fairchild Air Force Base > Article Display. (Sótt 18.09.2018).