Hvaðan kemur orðið "splæsa" í þeirri merkingu að borga fyrir einhvern, því við þekkjum það frá að splæsa saman kaðal en hvernig þróast það í hina merkinguna?Sögnin að splæsa hefur tvær merkingar. Annars vegar er hún notuð um að tengja saman tvo víra eða tvo kaðla en hins vegar um að deila kostnaði, eyða peningum í sjálfan sig eða aðra. Elstu dæmi um báðar merkingarnar í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans og á timarit.is eru frá fyrri hluta 20. aldar. Í báðum tilvikum er um að ræða tökuorð úr dönsku splejse. Í Íslenskri orðsifjabók (1989:938) segir um splæsa að danska orðið sé fengið að láni úr ensku splice og hollensku splitten, splissen, sk. holl. splitten ‘kljúfa’. Merkingarþróunina má hugsa sér þannig að hin eldri sé að tengja saman víra eða kaðla en þaðan sé fengið að deila kostnaði, það er einhver tekur að sér að greiða fyrir annan: „Ég skal splæsa á þig kaffi“. Viðkomandi tekur þá báða reikningana og gerir að einum líkt og er með kaðalendana. Síðar verður merkingin enn víðari og hægt er að splæsa aðeins á sjálfan sig: „Ég ætla að splæsa í kjól handa mér fyrir veisluna“ eða á heilan hóp: „Ég splæsi bjór á alla“. Þriðja merkingin ‘gefa saman’ er dregin af hinum: „Presturinn mun splæsa þau saman á sunnudaginn“. Heimild:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Friends Images · Pixabay · Download Free Pictures. (Sótt 1.10.2018).