Er að velta fyrir mér notkun á orðinu "erlendis" Það var pistill á Rás 1 fyrir nokkru þar sem farið var yfir notkun á þessu orði. Þar var talið rangt að segja, "við förum erlendis", það ætti að segja til útlanda eða utan. Hvað er rétt í þessu máli, þessu hefur nefnilega verið mótmælt harðlega í góðra vina hópi. Í hvaða tilfellum er hægt að nota þetta orð. Takk fyrir.Viðtekin venja er að líta á orðið erlendis sem staðaratviksorð, það er orð sem lýsir dvöl á stað. Í Íslenskri nútímamálsorðabók á vefnum málið.is segir til dæmis
erlendis atviksorð/atviksliður í útlöndum dóttir hennar stundar nám erlendisÍ Málfarsbankanum á sama vef stendur:
Atviksorðið erlendis merkir: í útlöndum. Það er því eðlilegt að segja dveljast erlendis en aftur á móti ekki „erlendis frá“ og „fara erlendis“. Fremur skyldi segja frá útlöndum og fara út (utan), fara til útlanda.Ýmis atviksorð í nútímamáli hafa viðliðinn -lendi eins og hérlendis, miðlendis, norðlendis, utanlendis, þarlendis sem benda til dvalar á stað (Guðrún Kvaran:25) en viðliðurinn þekktist einnig vel í fornu máli og þá einnig sem staðaratviksorð (Guðrún Kvaran:15). Lýsing í Málfarsbankans er hin almennt viðurkennda þótt sambandið fara erlendis heyrist mjög oft. Í Íslenskri orðabók (2002:286) er sett sérstakt merki, !?, við merkinguna ‘í annað land, til annarra landa’ en um það segir (2002:xiii): „orð eða málatriði sem ekki nýtur fullrar viðurkenningar, telst ekki gott mál í venjulegu samhengi“. Heimildir:
- Guðrún Kvaran. 1990–1991. Um -is endingu atviksorða. Íslenskt mál og almenn málfræði 12.–13. árgangur, bls. 7–29.
- Íslensk orðabók. 2002. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Ritstjóri Mörður Árnason. Edda, Reykjavík.