Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Allt síðan á 18. öld hafði verið fræðsluskylda á Íslandi, foreldrar verið ábyrgir fyrir því að börn lærðu að lesa og skrifa og fræddust um meginatriði kristindóms. Seint á 19. öld bættist við krafa um reikningskunnáttu. Á 19. öld var líka tekið að stofna barnaskóla á einstökum þéttbýlisstöðum. En í sveitum voru víða starfræktir svokallaðir farskólar. Á bæjum þar sem húsrými var með betra móti var safnað saman börnum af bæjum úr grenndinni; þau sem áttu ekki langt heim gengu í og úr skóla daglega, önnur gistu á skólastaðnum. Eftir nokkurra vikna nám flutti kennarinn sig svo á annan vel hýstan bæ og hélt annað námskeið þar.
Kennarar og nemendur framan við barnaskólann á Ísafirði. Mynd frá tímabilinu 1910-1920.
Það var þó ekki fyrr en 1908 sem nokkurn veginn almennri skólaskyldu var komið á með lögum. Þá voru þéttbýlishreppar skyldaðir til að stofna fasta skóla, en í sveitum mátti komast af með farskóla eða skipulegt eftirlit með heimafræðslu. Skóla áttu börn að sækja í fjóra vetur frá tíu ára aldri til 14 ára. Þar skyldi kenna lestur, skrift og reikning, kristinfræði, nokkur íslensk kvæði og nokkur sönglög, einkum við ættjarðarljóð. Þá áttu börnin að „vita nokkuð um merkustu menn vora, einkum þá er lifað hafa á síðustu öldum“. Ekkert tungumálanám var nefnt í lögunum, ekki einu sinni danska þó að Ísland teldist þá enn hluti danska ríkisins.
Þegar sleppti skyldunámi var mest um starfstengda skóla. Elstur slíkra skóla var Kvennaskólinn í Reykjavík, einkaskóli, stofnaður árið 1874. Hann var starfstengdur að því leyti að hann kenndi húsmóðurstörf, en hann var jafnframt almennur bóknámsskóli, eins og fleiri kvennaskólar sem voru stofnaðir víðs vegar um landið á næstu áratugum, sumir kallaðir húsmæðraskólar. Þegar stofnaðir voru skólar fyrir stúlkur fyrr en pilta var hugsunin sjálfsagt að einhverju leyti sú að þeir væru kvenleg hliðstæða við Lærða skólann í Reykjavík sem var aðeins ætlaður piltum fram undir aldamótin 1900 og var lítt sóttur af stúlkum fyrr en löngu seinna. Svo komu líka aðrir starfstengdir skólar pilta, búnaðarskólar fjórir á níunda tug aldarinnar, Stýrimannaskólinn í Reykjavík 1891, Iðnskólinn í Reykjavík 1904 og fljótlega eftir það iðnskólar í fleiri kaupstöðum, Verslunarskóli Íslands í Reykjavík 1905 og Samvinnuskólinn í eigu Sambands íslenskra samvinnufélaga 1918. Ljósmæðraskóli var stofnaður í Reykjavík samkvæmt lögum frá 1912 og þróaðist síðar í almennan hjúkrunarskóla.
Kennari og nemendur í kennslustofu Menntaskólans, 1918-1919.
Á síðari hluta 19. aldar var tekið að stofna bóknámsskóla fyrir unglinga, svokallaða gagnfræðaskóla, á Möðruvöllum í Hörgárdal 1880 (sem fluttist seinna til Akureyrar) og Flensborgarskóla í Hafnarfirði litlu síðar. Gagnfræðaskólar voru hliðstæðir við efstu bekki grunnaskólans nú og voru starfræktir víða þar til grunnskólinn var framlengdur til 15 ára aldurs árið 1974. Í Flensborg var starfrækt kennaraskóladeild sem starfaði til 1908 þegar Kennaraskólinn tók til starfa í Reykjavík.
Svokölluð æðri menntun var veitt á einum stað í landinu, í skóla sem var kallaður Lærði skólinn í Reykjavík uns honum var sett ný reglugerð fyrir „hinn almenna menntaskóla í Reykjavík“. Hann var þá sex ára skóli, fyrst þriggja ára gagnfræðadeild, síðan þriggja ára lærdómsdeild sem lauk með stúdentsprófi.
Nýstúdentar árið 1910, en aðeins ein stúlka í hópi 15 nýútskrifaðra. Þetta var síðasti stúdentaárgangurinn sem ekki gat gengið beint inn í Háskóla Íslands, en tíu þeirra luku svo prófi þaðan. Hin fimm hófu öll háskólanám í Kaupmannahöfn en luku ekki prófi.
Háskólanám að loknu stúdentsprófi höfðu Íslendingar öldum saman einkum stundað í Kaupmannahöfn þar sem þeir nutu raunar mikilvægra forréttinda um húsnæðisstyrk. En á 19. öld var tekið að stofna í Reykjavík sérskóla um háskólanám, prestaskóla 1847, læknaskóla 1876 og lagaskóla 1908. Þessir þrír embættismannaskólar sameinuðust í Háskóla Íslands árið 1911, að viðbættri svokallaðri heimspekideild þar sem einkum var fengist við íslensk fræði. Fyrstu árin brautskráði Háskólinn um tíu kandídata á ári. Að viðbættum örfáum sem luku háskólanámi í Kaupmannahöfn, eða aðra háskóla erlendis, var þetta öll menntamanna-framleiðsla þjóðarinnar. Þó að Háskólinn væri frá upphafi opinn fólki af báðum kynjum var öll þessi framleiðsla karlkyns fram yfir 1918, nema ein stúlka, Kristín Ólafsdóttir, sem lauk embættisprófi í læknisfræði árið 1917.
Heimildir
Aldarsaga Háskóla Íslands 1911–2011. Ritstjóri Gunnar Karlsson. Höfundar Guðmundur Hálfdanarson, Sigríður Matthíasdóttir, Magnús Guðmundsson. Reykjavík, Háskólaútgáfan, 2011.
Almenningsfræðsla á Íslandi 1880–2007. Ritstjóri Loftur Guttormsson. I. Skólahald í bæ og sveit 1880–1945. Loftur Guttormsson, Ólafur Rastrick, Ólöf Garðarsdóttir. Reykjavík, Háskólaútgáfan, 2008.
Saga Íslands X. Samin að tilhlutan Þjóðhátíðarnefndar 1974. Ritstjórar Sigurður Líndal, Pétur Hrafn Árnason. Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 2009.
Aldarsaga Háskóla Íslands 1911-2011. Ritstjóri Gunnar Karlsson. Höfundar Guðmundur Hálfdanarson, Sigríður Matthíasdóttir, Magnús Guðmundsson. Reykjavík, Háskólaútgáfan, 2011. Bls. 55.
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvað var hægt að læra 1918 og hvers konar skólar voru á Íslandi þá?“ Vísindavefurinn, 20. júní 2018, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75843.
Gunnar Karlsson (1939-2019). (2018, 20. júní). Hvað var hægt að læra 1918 og hvers konar skólar voru á Íslandi þá? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75843
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvað var hægt að læra 1918 og hvers konar skólar voru á Íslandi þá?“ Vísindavefurinn. 20. jún. 2018. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75843>.