Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þórdís Ingadóttir er dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Hennar sérsvið eru þjóðaréttur og mannréttindi.
Þórdís hefur meðal annars rannsakað náið innleiðingu alþjóðasamninga í íslenskan rétt, og þá helst á sviði mannréttinda og alþjóðlegs refsiréttar. Hún hefur einnig rannsakað alþjóðalög fyrir landsdómstólum, bæði íslenskum og erlendum.
Þá hefur Þórdís skrifað mikið um alþjóðadómstóla, meðal annars um lögsögu Alþjóðadómstólsins í Haag og störf Alþjóðlega sakamáladómstólsins. Hún hefur líka rannsakað sérstaklega bætur til þolenda alvarlegra glæpa fyrir alþjóðadómstólum.
Sérsvið Þórdísar eru þjóðaréttur og mannréttindi.
Rannsóknir Þórdísar fjalla einnig um sjálfstæði alþjóðastofnana. Birtast þær rannsóknir meðal annars í greinum um fjármögnun alþjóðastofnana, kosningar alþjóðadómara og friðhelgi starfsmanna alþjóðastofnana. Að lokum hefur Þórdís lengi rannsakað ábyrgð einstaklinga fyrir alvarlega alþjóðlega glæpi og hvernig þeirri ábyrgð er framfylgt bæði að landsrétti og þjóðarétti.
Þórdís er virk í alþjóðlegu rannsóknarstarfi. Hún er einn af framkvæmdastjórum Project on International Courts and Tribunals (PICT). Á árunum 2008-2012 var hún einnig framkvæmdastjóri og rannsakandi í DOMAC-verkefninu, sem fjallaði um áhrif alþjóðadómstóla á saksóknir í landsrétti fyrir alvarlega glæpi. Verkefnið var fjármagnað af 7. rammaáætlun Evrópusambandsins og var samstarfsverkefni lagadeildar Háskólans í Reykjavík, University of Amsterdam, Hebrew University, University College London og University of Westminster. Þá er hún þátttakandi í alþjóðlegu rannsóknarverkefni um International Law in Domestic Courts (ILDC), sem ritstýrir meðal annars gagnabanka hjá Oxford University Press um dóma í landsrétti.
Á allra síðustu árum hefur Þórdís jafnframt unnið að rannsóknarverkefni á Norðurlöndunum um stefnu landanna og ásýnd hvað varðar alþjóðlegan refsirétt og er það gert í samvinnu við rannsakendur frá háskólunum í Kaupmannahöfn, Helsinki, Osló og Stokkhólmi. Þórdís situr í ritstjórn Nordic Journal of International Law.
Þórdís hefur verið ráðgjafi stjórnvalda um ýmis efni er falla undir sérsvið hennar. Þá hefur hún verið fulltrúi stjórnvalda og háskóla í fjölda fagnefnda, bæði hérlendis og hjá alþjóðastofnunum. Hún er einnig virk í mannréttindastarfi félagasamtaka, meðal annars sem stjórnarmaður hjá Mannréttindaskrifstofu Íslands, í stjórn Landssamtaka Þroskahjálpar og formaður Félags áhugafólks um Downs-heilkenni.
Þórdís er fædd 1969. Hún lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1993 og LL.M.-gráðu í alþjóðalögfræði frá New York University School of Law 1998. Hún starfaði við New York University 1999-2003 og hefur starfað við Háskólann í Reykjavík frá 2004.
Mynd:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir stundar Þórdís Ingadóttir?“ Vísindavefurinn, 26. apríl 2018, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75732.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 26. apríl). Hvaða rannsóknir stundar Þórdís Ingadóttir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75732
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir stundar Þórdís Ingadóttir?“ Vísindavefurinn. 26. apr. 2018. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75732>.