Kannist þið við orðið tíri/týri um timburstafla (stæða af borðum t.d. 1"x 6")? Heyrði þetta fyrst í byggingavinnu um 1962.Hvergi hef ég fundið orðið tíri eða týri í þeirri merkingu sem um var spurt. Ég hef spurt nokkra sem unnu í byggingarvinnu á sjöunda áratug síðustu aldar en enginn þeirra mundi eftir orðinu og ekki hefur það komist í orðabækur eftir því sem ég fæ séð. Orðið tyri eða tyrviður var hins vegar til í fornu máli um kvoðuríkan furu- eða grenivið (Íslensk orðsifjabók 1989:1076). Hann var mjög eldfimur og gjarnan notaður í blys. Líklegt er að tengsl séu á milli þessara orða og þess sem spurt var um. Til er orðasamband í fornu máli, vera kominn á týratré, í merkingunni að vera í nauðum, að þrotum kominn, sem ég tel líklegt að tengist líka. Ef einhverjir þekkja orðin tíri eða týri væri gott að frétta af því og ég mun halda áfram að leita. Mynd:
- Free stock photos - Firewood. (Sótt 9.7.2018).