Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir efnaverkfræðingur, er verkefnisstjóri við Efnis-, líf- og orkutæknideild Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og framkvæmdarstjóri Álklasans. Rannsóknir hennar hafa verið á ýmsum sviðum, allt frá efnisþróun hlífðarefna fyrir örgjörva, myndgreiningaraðferða á virkni efnahvata til osmósuvirkjana á íslenskum vatnsföllum.
Á undanförnum árum hefur Guðbjörg einkum fengist við rannsóknir sem tengjast íslenskum iðnaði og hefur hún meðal annars skoðað framleiðsla einangrunarefna úr affallssefni frá iðnaði og álframleiðslu með óvirkum rafskautum. Guðbjörg hefur starfað sem framkvæmdarstjóri Álklasans frá stofnun hans árið 2015 en klasinn er samstarfsvettvangur fyrirtækja á sviði áliðnaðar og stóriðju og hefur meðal annars að markmiði að stuðla að virðisaukningu og nýsköpun í þessum geira.
Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir er fædd árið 1975. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1995 og BS-gráðu í efnafræði frá Háskóla Íslands árið 1998. Hún lauk doktorsgráðu í efnaverkfræði frá Purdue-háskóla í Bandaríkjunum árið 2003. Doktorsverkefni Guðbjargar fjallaði um nýtingu FT-IR-myndgreiningar á virkni efnahvata sem gaf möguleika á að skoða samhliða virkni efnahvatanna og umbreytingu hvarfefna í myndefni hjá allt að sextán efnahvötum samtímis.
Guðbjörg starfaði sem verkfræðingur hjá Intel Corporation í Bandaríkjunum 2003-2005, hjá Iðntæknistofnun 2005-2006, hjá Actavis 2006-2008 og hefur starfað hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands frá 2008.
Mynd:- Úr safni GHÓ.