Á Grænhöfðaeyjum er talað tungumál sem kallast „kreol“ og er kokkteill portúgölsku og ýmissa afrískra tungumála. Meðal ýmissa þjóðlegra rétta í matarmenningu eyjaskegga er svínakjötskássa sem svipar svolítið til íslenskrar kjötsúpu og nefnist cachupa en orðið er borið fram katsjúpa og svipar mjög til orðsins kjötsúpa. Innfæddur sagði að orðið sem slíkt hefði enga þýðingu aðra en að vera nafn þessa réttar. Spurningin er því þessi: Eru einhverjar líkur á því að þetta orð eigi norrænan eða jafnvel íslenskan uppruna?Cachupa er afar algengur réttur á Grænhöfðaeyjum (Cape Verde) í Vestur-Afríku. Hver eyja notar sína eigin uppskrift en svo virðist sem setja megi í pottinn það sem til er. Uppistaðan er korn, baunir, sætar kartöflur, fiskur eða kjöt af ýmsu tagi, naut, svín, kjúklingur, geit eða jafnvel pylsur. Þótt portúgalski framburðurinn á réttinum [kɐˈʃupɐ] svipi til framburðarins á íslenska réttinum kjötsúpu finn ég ekkert sem bendir á áreiðanleg tengsl. Myndir:
- Wikipedia - Cachupa. (Sótt 18.4.2018).
- Wikimedia Commons. (Sótt 18.4.2018).