Ýmist er talað um barrskóg eða greniskóg. Hver er munurinn á þessu, hver er munurinn á barri og greni? Þessar vangaveltur komu fram í kennslustund hjá mér og gaman væri að fá svör frá ykkur.Munurinn á barrskógi og greniskógi er sá að í barrskógi geta verið ýmsar tegundir barrtrjáa (þar á meðal greni) en í greniskógi eru fyrst og fremst grenitré. Það kann vel að vera að í daglegu tali noti sumir þessi tvö hugtök eins og samheiti en raunin er sú að allir greniskógar eru barrskógar en allir barrskógar eru hins vegar ekki greniskógar. Barrtré eru tré af ætt berfrævinga (Pinophyta). Barrið sem þau eru kennd við er í raun upprúlluð laufblöð, löng og mjó, nálar- eða hreisturlaga. Barrskógar þekja stór svæði á norðurhveli jarðar og er talað um það sem barrskógabeltið (taiga). Barrtré skiptast í nokkrar ættkvíslir en trén í barrskógum norðursins tilheyra aðallega fjórum ættkvíslum, það eru lerki (Larix), greni (Picea, þinur (Abies) og fura (Pinus). Í Norður-Ameríku eru tvær tegundir af þin ríkjandi og tvær af greni en í Skandinavíu og Vestur-Rússlandi er skógarfuran (Pinus sylvestris) afar útbreidd. Algengustu barrtrén á Íslandi eru fura, greni og lerki. Innan greniættkvíslarinnar eru um 35 tegundir. Þetta eru yfirleitt stór tré og verða að jafnaði 20-60 metra há fullvaxin. Þau hafa einkennandi keilulaga vaxtarlag og kransstæðar greinar. Grenitegundir eru meðal mikilvægustu timburtrjáa heims. Þær grenitegundir sem mest hafa verið gróðursettar á Íslandi eru sitkagreni (Picea sitchensis), rauðgreni (Picea abies), blágreni (Picea engelmannii) og hvítgreni (Picea glauca). Myndir:
- Young conifers in Abernethy Forest (C) Trevor Littlewood :: Geograph Britain and Ireland. Höfundur myndar: Trevor Littlewood. Birt undir CC BY-SA 2.0 leyfi. (Sótt 21. 9. 2018).
- Taiga Landscape in Canada.jpg - Wikimedia Commons. Birt undir CC BY-SA 2.0 leyfi. (Sótt 21. 9. 2018).