Joan Nymand Larsen er vísindamaður við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og prófessor við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri. Hún er hagfræðingur og sérhæfir sig í efnahagslegri og sjálfbærri þróun á norðurslóðum; nýtingu og stjórnun náttúruauðlinda; félagslegum og efnahagslegum áhrifum loftslagsbreytinga; og þróun kerfa til að meta og vakta þróun lífskjara og lífsgæða.
Joan var í forsvari fyrir nýlega skýrslu, Arctic Human Development Report (2014), um þróun mannlífs á norðurslóðum. Um þessar mundir beinast norðurslóðarannsóknir Joan að nýjum leiðum fyrir samfélög og íbúa; þar með talið að finna lausnir sem tengjast efnahagslegum og lýðfræðilegum áskorunum, þéttbýlismyndun og lífstílsbreytingum, og vernd lifnaðarhátta frumbyggja.Joan stýrir um þessar mundir alþjóðlegu verkefni um líf ungs fólks á norðurslóðum, vonir og væntingar þess og þær áskoranir sem það stendur frammi fyrir. Hún stundar einnig rannsóknir á samfélags- og efnahagslegum áhrifum loftslagsbreytinga almennt. Hún var leiðandi höfundur Polar Regions, 5. kafla matsskýrslu IPCC, WG-II. Hún er samstarfsaðili í H2020-verkefni (Nunataryuk), sem rannsakar áhrif þiðnunar sífrera, með áherslu á hvernig íbúar á norðurskautssvæðinu sem búa nálægt sífreraströndum, verða fyrir áhrifum af breytingum á strandsvæðunum, þar á meðal áhrifum á innviði, mannvirki og staðbundið efnahagslíf. Rannsóknir Joan leitast við að skilgreina efnislega, líkamlega og félagslega áhættu vegna þverrandi sífrera og áhrifaríka aðlögun og mótvægisaðgerðir. Vettvangssvæði eru Vestur-Grænland, Svalbarði og Inuvialuit-svæðið í Kanada.
Joan stýrir einnig rannsóknum á áhrifum nýtingar náttúruauðlinda á heimskautssvæðum í verkefni norræns öndvegisseturs (Nordic Centre of Excellence - Resource Extraction & Sustainable Arctic Communities) sem felur einnig í sér þróun sjálfbærnisþróunarvísa sem hægt er að nota við umhverfislegt, félagslegt og efnahagslegt mat á áhrifum olíu-, gas- og námavinnslu á norðurslóðum.
Joan fæddist í Danmörku árið 1963 og bjó hluta af æskuárunum í Maniitsoq og Nanortalik á Grænlandi. Eftir menntaskólapróf í Danmörku og ár sem skiptinemi við landbúnaðarstörf í Ástralíu hóf hún nám í hagfræði við Háskólann í Kaupmannahöfn. Hún útskrifaðist síðan með MA-gráðu í hagfræði frá Háskólanum í Manitoba í Kanada og síðar doktorsgráðu í hagfræði frá sama háskóla árið 2002. Doktorsritgerðin ber titilinn: Economic Development in Greenland: A time series analysis of dependency, growth, and instability.
Myndir:- Úr safni JNL.